Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1001  —  321. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti, Kristján Torfason, Karl Axelsson og Sif Guðjónsdóttur frá óbyggðanefnd, Ólaf Björnsson lögmann og Ágúst Þór Bragason, Bjarna Þór Einarsson og Elínu Líndal frá Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra.
    Umsagnir um málið bárust frá Bændasamtökum Íslands, Landvernd og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum sem fela í meginatriðum í sér að nauðsynlegur kostnaður annarra en ríkisins af hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd verði lagður á ríkissjóð og að gerðar verði breytingar á málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd. Í þessum tillögum felst m.a. að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins verði gert að lýsa kröfum á undan hagsmunaaðilum á viðkomandi svæði.
    Við meðferð málsins hjá nefndinni kom fram ósk um það frá hagsmunaaðilum að gerðar yrðu breytingar á lögunum og sönnunarreglur settar um í hvaða tilvikum land teldist eignarland. Ræddi nefndin þetta sjónarmið nokkuð, einkum með hliðsjón af hlutverki óbyggðanefndar en samkvæmt lögunum er hún sjálfstæð stjórnsýslunefnd og er starfssvið hennar afmarkað í 7. gr. laganna. Þegar lögin voru sett var byggt á því að ekki yrðu settar sérstakar sönnunarreglur eða lagaskilyrði fyrir því að land teldist eignarland í merkingu laganna heldur réðist það af almennum sönnunarreglum og réttarheimildum sem færðar væru fram í hverju einstöku tilviki. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að áfram verði byggt á því.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 11. gr. Í stað orðanna „6. gr.“ komi: 7. gr.

    Hjálmar Jónsson og Sverrir Hermannsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. apríl 2000.Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Ásta Möller.Lúðvík Bergvinsson.


Vigdís Hauksdóttir.


Guðrún Ögmundsdóttir.Jónína Bjartmarz.