Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1033  —  597. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um lagalega stöðu byggðasamlaga.

     1.      Hver er lagaleg staða byggðasamlaga?
    Um byggðasamlög eru lagaákvæði í VII. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Lagaleg staða þeirra kemur þar fram. Rétt er að leggja áherslu á að einungis sveitarfélög geta átt aðild að byggðasamlagi en ekki ríki eða einkaaðilar. Í 5. mgr. 82. gr. laganna kemur fram að sveitarsjóðir beri einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum byggðasamlags sem þeir eru aðilar að en innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við íbúatölu. Um heimildir stjórnar byggðasamlags til að skuldbinda sveitarsjóði aðildarsveitarfélaganna skulu vera ákvæði í samningi aðildarsveitarfélaga um stofnun byggðasamlag.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að sett verði lög um byggðasamlög í því skyni að skýra réttarstöðu starfsmanna þeirra og viðsemjenda í samskiptum við byggðasamlögin?
    Lagaákvæði um byggðasamlög hafa verið í sveitarstjórnarlögum frá því að lög nr. 8/1986 voru sett. Ekki hafa komið upp slík vandamál frá gildistöku þessara lagaákvæða að ástæða hafi þótt til að setja ítarlegri reglur um starfsemi byggðasamlaga í lög. Frá gildistöku lagaákvæðanna hafa engar óskir borist frá sveitarfélögum eða öðrum aðilum um breytingar á þeim.