Ferill 598. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1178  —  598. mál.



Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Ástu Möller um alþjóðasamninga á sviði mannréttinda.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða alþjóðasamningar á sviði mannréttinda, sem Ísland hefur undirritað, hafa ekki verið fullgiltir af Íslands hálfu og hver er ástæða þess?

    Ísland er aðili að rúmlega þrjátíu alþjóðasamningum sem telja má á sviði mannréttinda. 1 Auk þess hefur Ísland undirritað eftirfarandi sjö alþjóðasamninga og bókanir á þessu sviði sem enn hafa ekki verið fullgilt af Íslands hálfu (fjöldi ríkja sem fullgilt hafa kemur fram í sviga):
5.5.1988    Additional Protocol to the European Social Charter, undirrituð 5. maí 1988 (8).
5.11.1992    European Charter for Regional or Minority Languages, undirritaður 7. maí 1999 (9).
1.2.1995    Framework Convention for the Protection of National Minorities, undirritaður 1. febrúar 1995 (31).
3.5.1996    European Social Charter (revised), undirritaður 4. nóvember 1998 (5).
4.4.1997    Convention for the Protection of Human Rights and Dignity of the Human Being with regard to the Application of Biology and Medicine: Convention on Human Rights and Biomedicine, undirritaður 4. apríl 1997 (6).
12.1.1998    Additional Protocol to the Convention for the Protection of Human Rights and Dignity of the Human Being with regard to the Application of Biology and Medicine, on the Prohibition of Cloning Human Beings, undirrituð 12. janúar 1998 (4).
6.10.1999    Optional Protocol to the Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination against Women, undirrituð 10. desember 1999 (0).
    Í undirritun alþjóðasamnings felst viljayfirlýsing um fullgildingu hans síðar. Í samræmi við það er stefnt að því að framangreindir samningar og bókanir verði fullgilt af Íslands hálfu að loknum nauðsynlegum undirbúningi, þar á meðal þinglegri meðferð ef við á.
    Rétt er að hafa í huga að ýmsir alþjóðasamningar stuðla að mannréttindavernd þótt þeir teljist strangt til tekið ekki á sviði mannréttinda. Í því sambandi er skemmst að minnast Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn frá 17. júlí 1998 sem telja verður afar mikilvægt framlag til mannréttindaverndar og friðar í heiminum. Rómarsamþykktin var undirrituð fyrir Íslands hönd 26. ágúst 1998 og hefur í utanríkisráðuneytinu verið unnið ötullega að undirbúningi fullgildingar samþykktarinnar og lögð á það áhersla að Ísland verði í hópi fyrstu ríkja til að fullgilda hana. Með ályktun 8. maí 2000 heimilaði Alþingi fullgildingu samþykktarinnar.

1 Ekki er einhlítt hvaða alþjóðasamningar teljast vera á sviði mannréttinda. Hér er leitast við að fylgja sömu flokkun samninga og notuð er hjá Sameinuðu þjóðunum annars vegar og Evrópuráðinu hins vegar.


Prentað upp.