Afgreiðsla frumvarps um málefni öryrkja

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 13:50:01 (3550)

2001-01-15 13:50:01# 126. lþ. 56.94 fundur 243#B afgreiðsla frumvarps um málefni öryrkja# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er afskaplega undrandi á þessum umræðum. Nú er það að sjálfsögðu í valdi stjórnarandstöðunnar hvort hún vill að umræður hefjist í dag. Ég hef ekki orðið var við það síðan þessi dómur féll að stjórnarandstaðan hafi verið í nokkrum vanda með að tjá sig um hann, jafnvel þó að þeir sem styðja ríkisstjórnina og þeir sem sitja í ríkisstjórn hafi verið í miklum vanda með það fyrst til að byrja með. Það var ekki fyrr en niðurstaða starfshóps lögfræðinga lá fyrir að við treystum okkur til að tjá okkur um þennan dóm.

Það er leitt til þess að vita ef stjórnarandstaðan hefur ekki fengið aðgang að gögnum og verið synjað um það. Ég trúi því varla, en ef svo er þá er það mjög miður, ég tek undir það. En ég hef ekki tekið eftir öðru undanfarna daga en að stjórnarandstaðan hafi rætt þessi mál í þjóðfélaginu eins og hún væri með gögnin. En hún er hins vegar ekki reiðubúin til þess að ræða þau á Alþingi.

Það er afskaplega sérkennilegt að stjórnarandstaðan skuli vera tilbúin að ræða þetta mál úti um allt þjóðfélagið en bara ekki á Alþingi. Nú hefði í sjálfu sér verið hægt að kalla Alþingi fyrr saman, fyrir helgi, til þess að leggja frv. fram ef menn hefðu vitað að stjórnarandstaðan vildi ekki veita venjuleg afbrigði til að þetta kæmi sem fyrst á dagskrá, það hefði verið hægt. (ÖJ: Til að brjóta stjórnarskrána?)

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði að það þyrfti engin lög, það þyrfti bara vilja. Og talað var um lítilsvirðingu við löggjafarsamkomuna. Er það ekki lítilsvirðing við löggjafarsamkomuna að láta það nánast í ljós að ekki þurfi að kalla hana saman út af þessu stærsta máli sem hefur komið fram að mínu mati um árabil? Að sjálfsögðu þurfti að kalla löggjafarsamkomuna saman, það liggur alveg ljóst fyrir. (ÖJ: Þetta eru útúrsnúningar.) Þessar bætur verða ekki greiddar nema Alþingi setji fram vilja sinn. (ÖJ: Útúrsnúningar.) Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur fengið sinn tíma hér og getur hvenær sem er talað um þetta mál. Hv. þm. neitar að tala um það í dag en vill tala um það í öllum fjölmiðlum þjóðfélagsins. Það er að mínu mati forkastanlegt að vanvirða Alþingi með því að neita að ræða það hér.