Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 14:12:40 (3558)

2001-01-15 14:12:40# 126. lþ. 57.1 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv., JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[14:12]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér finnst framgangur mála í dag með ólíkindum. Það er bókstaflega hægt að segja að allt sé á tjái og tundri. Hæstv. forseti setur í gang umræður um mál og ekki liggja einu sinni fyrir pappírar og menn hlaupa um með dagskrá fundarins á sama tíma og hafin er afgreiðsla á málunum sem eru á þeirri dagskrá. Þingmenn fá að vita það á sama augnabliki að mál þeirra séu komin á dagskrá þessa dags í þinginu. Áður en fundurinn hófst lá fyrir samkvæmt því sem hæstv. forseti sagði að hér ætti að ræða mál sem hafði aldrei verið sent frá þinginu í hendur þingmanna. Núna þegar hæstv. forseti hefur ákveðið að láta það mál hafa þinglega meðferð, og þökk sé fyrir að það skuli þó hafa verið gert án þess að það þyrfti að reka það til baka með atkvæðagreiðslu í þinginu, þá verður uppi fótur og fit og menn eru ekki undirbúnir undir neitt og enginn þingmaður hefur fengið að vita af því að mál hans eigi að koma á dagskrá og til umræðu í þinginu í dag.

Hæstv. forseti. Ég segi alveg eins og er að mér finnst þurfa að undirbúa umræður betur en hér hefur verið gert í dag og full ástæða sé til að gagnrýna málsmeðferð af þessu tagi. Mér finnst að þingmenn eigi að njóta þeirrar virðingar að þeim sé gert viðvart. Þeir hafa lagt mikla vinnu í að undirbúa mál sín og það er ekki boðlegt að menn fái að vita með nokkurra mínútna fyrirvara að nú eigi loksins að fara að ræða mál sem þeir hafa beðið með í allan vetur að komi til umræðu. Það þýðir ekkert að vera með þá viðbáru að menn eigi að hafa mál sín tilbúin úr því þeir séu búnir að bíða svona lengi. Það gera menn auðvitað ekki. Þeir útbúa ræður sínar stuttu áður en málið kemur á dagskrá því þær verða úreltar þegar menn eru látnir bíða með mál. Hv. þm. bíða flestir mánuðum saman með mál sem þeir hafa lagt fram í haust. Ekki þýðir að setja framsöguræðu á blað og ætla að flytja hana einhvern tímann seinna í þinginu. Það gerir maður þegar maður veit að málið kemst á dagskrá. Þess vegna verða umræður um þau mál sem hv. þm. hafa fram undan í dag sem þeir hafa beðið með frá því í haust ekki eins og þingmenn vilja.

Ég mótmæli þessu. Mér finnst ekki boðlegt að þingmönnum sé boðið upp á slík vinnubrögð. Það hefur ævinlega verið gert í þinginu, a.m.k. eftir því sem ég þekki til, að mönnum hafi verið gerð grein fyrir því að nú ætti að taka þeirra mál á dagskrá og þeim gefinn kostur á að segja til um það hvort þeir eru tilbúnir til að ræða þau mál þann daginn.