Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 14:20:36 (3562)

2001-01-15 14:20:36# 126. lþ. 57.1 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv., RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[14:20]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að hafa fullan skilning á því að hæstv. forseti vor sé í uppnámi. Það er alls ekki vanalegt að sjálfur forsrh. skuli koma í ræðustól og blása mál samráðherra síns út af dagskrá. Ég býst við að fleiri séu undrandi í dag en ég. Það var ekki hæstv. heilbrrh. sem óskaði eftir því að málið um að taka almannatryggingamálið á dagskrá færi ekki í atkvæðagreiðslu, það var hæstv. forsrh. Við erum auðvitað vön því, herra forseti, að hann sýni fullkominn yfirgang við alla en nú er hann farinn að sýna hann við ráðherra sína, fyrst með því að kippa máli sem heyrir undir heilbrrh. úr höndum ráðherrans og setja það í hendur eins konar yfirdómara sem hann hefur skipað í máli sem hefur komið frá Hæstarétti.

Ég skil mjög vel að þegar svona mál hefur komið upp á þinginu og við þann úlfaþyt sem það hefur valdið fari ýmislegt úrskeiðis. Ég vil hins vegar árétta það að kl. 11.30 í morgun, u.þ.b. á miðjum fundi okkar með forseta, var tilkynnt að hér yrði undirbúinn þriðji fundur. Það var tilkynning til okkar þingflokksformanna. Að sjálfsögðu bar ég þá tilkynningu inn á þingflokksfund Samfylkingarinnar eins og ég ber allt frá forseta, hvort sem það er beint samráð eða tilkynningar.

Herra forseti. Þannig höfum við unnið að ávallt hefur verið haft samráð við þingmenn, venjulega daginn áður, um hvort mál þeirra komi á dagskrá. Þó hefur það gerst að að morgni dags hefur verið spurt um það hvort viðkomandi þingmaður sé tilbúinn að ræða mál sitt þann daginn. Þetta hefur ekki gerst nú. Hver þingmaðurinn á fætur öðrum sér mál frá sér á dagskrá fundarins sem hann átti enga von á. Það er við þessu sem menn eru að bregðast.

Herra forseti. Nú held ég að fari vel á því að gera það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson bar fram, að gera stutt hlé á þessum fundi og hafa fund hjá forseta um þinghald í dag og hvaða mál verða tekin fyrir. Við skulum ekki byrja það vinnulag á Alþingi að þingmenn sjái mál sín birtast á dagskrá sem er dreift til þeirra fimm mínútum áður en farið er að ræða þau. Þetta er þvílík breyting á því sem hefur verið vinnulag á Alþingi að ég bara bið um það, gerum þetta ekki, herra forseti.