Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:29:46 (3640)

2001-01-16 15:29:46# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér fór eins og fleirum að ég varð forundrandi þegar þær fréttir bárust af því fyrir jólin að landbrn., undirstrikað landbrn., hefði heimilað innflutning á hráu nautakjöti frá Írlandi, frá kúariðulandinu Írlandi.

[15:30]

Pólitísk sagnfræði er áhugaverð og óútgefnar endurminningar stjórnmálamanna. Það er að vísu fremur óvenjulegt að menn sem hafa setið nokkur ár á þingi, eins og eitt og hálft ár sem ráðherrar séu orðnir svo uppteknir af framlagi sínu til stjórnmálasögunnar að þeir gangi um með bólginn hausinn af óútgefnum endurminningum sínum. Og það er enn verra ef menn gleyma hlutverki sínu af þeim sökum.

Hæstv. landbrh. svaraði ekki spurningunni hér: Hvers vegna var þessi innflutningur leyfður? Á því ber hæstv. landbrh. alla stjórnskipulega ábyrgð. Hæstv. landbrh. getur hvorki skotið sér á bak við reglur ráðuneytisins sem hann getur breytt sjálfur né þaðan af síður á bak við húskarla sína. Ég fullyrði að væri þetta Þýskaland eða önnur Evrópulönd þá væri farið að hitna ekki síður undir afturendanum á hæstv. landbrh., Guðna Ágústssyni, en þeim starfsbræðrum hans sem hafa fokið fyrir minni sakir en þær að leyfa innflutning á kjöti frá landi þar sem bullandi riða geisar. Fyrir þær sakir einar að leggja ekki fram nægar upplýsingar hafa landbúnaðarráðherrar orðið að segja af sér.

Ég, herra forseti, tel að það sem hér hefur gerst sé mjög alvarlegt og ekki bætir úr skák ef svo er sem ég hef heyrt fullyrt, eins og fram kom reyndar líka í máli hv. síðasta ræðumanns, að önnur fyrri tilvik séu jafnvel enn alvarlegri varðandi innflutning á kjöti hingað til lands á undanförnum mánuðum og missirum sökum þess að þar hafi jafnvel skort enn þá meira upp á að fullnægjandi vottorð væru fyrir hendi o.s.frv.

Ég tel ekkert annað koma til greina, herra forseti, en að fram fari opinber rannsókn á því hvernig staðið hefur verið að þessum málum á Íslandi að undanförnu. Og hæstv. landbrh. á ekki að komast upp með að breyta umræðum upp í fíflalæti með framgöngu af því tagi sem hann stóð fyrir hér áðan.