Ummæli landbúnaðarráðherra í utandagskrárumræðum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:47:40 (3647)

2001-01-16 15:47:40# 126. lþ. 59.93 fundur 251#B ummæli landbúnaðarráðherra í utandagskrárumæðum# (um fundarstjórn), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér er hafin um fundarstjórn forseta vil ég segja að það er þekkt og hv. þm. hlýtur að þekkja að ráðherra fer með síðustu ræðu í umræðum utan dagskrár. Mér þótti að vísu undarlega bregða við að sá sem jafnan gagnrýnir hæst og hefur hæst leyfir sér stærstu orðin og ræðst með mestri ósvífni að þingmönnum og ráðherrum skuli nú kveinka sér svo þegar honum loksins er svarað.

Ég hef því ekki nokkra iðrun í hjarta mínu fyrir að hafa vakið athygli á þeim málflutningi sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon viðhafði í umræðunni, þeim fullyrðingum sem hann lét fram fara.

Ég tel að ég hafi í þessari umræðu svarað eftir því sem ég gat við þessar aðstæður þeim spurningum sem hv. fyrirspyrjandi lagði fyrir mig. Hins vegar mun niðurstaða úr úttekt Eiríks Tómassonar lagaprófessors svara þeim að fullu þegar þær koma fram því að ásakanir hafa komið sem ég vil fá á hreint áður en ég svara þeim til fullnustu. Það verður gert. Þingið og landbn. verða kölluð til þegar því verki lýkur. Ég hef í rauninni ekki fleira um þetta að segja en hef auðvitað samúð yfir því og er hálfviðkvæmur að hafa gert hv. þm. Steingrím Sigfússon svona sáran í þessari umræðu. En minnist hann nú allra sinna verka í þeim efnum fyrr og síðar hvernig hann hefur sótt stundum að öðrum og látið sér fátt um finnast hvaða orð hann viðhafði.