Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:44:02 (3812)

2001-01-17 21:44:02# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:44]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Stórt er spurt og ég efast um að ég nái að svara þessu öllu hér en ég geri tilraun.

Hver er munurinn á sköttunum sem hv. þm. nefndi, húsaleigubótum, vaxtabótum o.s.frv., hvort skerða megi tekjur maka þegar um það ræðir en ekki örorkulífeyri? Hæstiréttur svarar þessu skýrt og ég taldi mig vera að gera tilraun til að útskýra þetta ítarlega í ræðu minni. Hæstiréttur segir:

,,Örorkulífeyrir, þar með talin tekjutrygging, er réttur sem öryrkjar fá vegna fötlunar sinnar.``

Síðan er vísað í að þetta sé stjórnarskrárvarinn réttur sem megi ekki skerða með tekjum maka og þá er verið að tala um 51.000 kr. eins og ég skil dóminn. Hæstiréttur rökstyður síðan að víðar í lögum sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna þegar veitt er aðstoð úr opinberum sjóðum og það sé heimilt vegna þess að þarna sé um að ræða heimildarákvæði til handa stjórnvöldum sem gefur ekki viðkomandi einstaklingi neinn sjálfstæðan stjórnarskrárvarinn rétt. Það er í raun og veru þarna sem munurinn liggur. Það er mjög gott að þessi spurning kom hérna fram. Að sjálfsögðu má áfram eftir sem áður nota skatta til tekjujöfnunar og það er bara mjög eðlilegt að gera það og mjög margir sem vilja gera það, a.m.k. jafnaðarmenn og það er mjög eðlilegt að gera það áfram --- og vaxtabætur. Ég ætla kannski ekki að fara að tjá mig um tekjutenginguna um hvert einasta tilvik sem hv. þm. nefndi. Maður getur ekki verið að hætta sér út í einhverja pytti þar en almennt breytir þessi dómur engu um það hvort nota megi skattkerfið eða einhver heimildarákvæði eins og lög um félagslega aðstoð til að veita einum aðstoð en öðrum ekki. Það er þessi stjórnarskrárvarði persónulegi réttur einstaklingsins sem felst í tekjutryggingunni, þessum 51.000 krónum sem má ekki skerða. Það er það sem málið snýst um og þarna sem munurinn er á þessu tvennu.

Ég vona að þetta hafi verið skýrt.