Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:24:02 (3832)

2001-01-17 22:24:02# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:24]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef tekið eftir því í dag að hv. stjórnarþingmenn og ráðherrar nota oft þetta orðalag ,,á þennan hátt``. --- Á þennan hátt megi ekki skerða og hengja sig í að það gefi þeim leyfi til að skerða á einhvern annan hátt. En hvað þýðir þetta hjá Hæstarétti? Þetta þýðir einfaldlega að ekki megi skerða á þann hátt sem gert var, þ.e. með því að skerða tekjutrygginguna (Gripið fram í: Við tekjur maka.) við tekjur maka. Það er nákvæmlega það sem það þýðir. Og mér finnst engin ástæða til að menn séu að snúa út úr því.

Síðan spyr ég hv. þm., úr því hann heldur því fram hér blákalt að það hafi orðið að setja lög um það sem eigi að vera hér í framtíðinni og taka við, hvers vegna er þá ekki eitt einasta ákvæði sem kemur inn sem tillaga frá hæstv. ríkisstjórn um annað heldur en skerðingar? Það er ekkert heimildarákvæði af neinu tagi, einungis skerðingarákvæði sem eru sett í lög.