Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:51:27 (3838)

2001-01-17 22:51:27# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:51]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég hef þá sannfæringu að samþykkjum við það frv. til laga sem við erum hér að fjalla um sé það brot á stjórnarskránni. Ég hef þá sannfæringu. Og því miður hefur það gerst áður og það tengt þessu máli. Búið er að dæma að lögin sem sett voru 1998 um almannatryggingalöggjöfina og greiðslur til öryrkja í sambúð hafi verið brot á stjórnarskránni. Þar með er ég ekki að segja að þeir sem samþykktu þau lög hafi vísvitandi verið að samþykkja brot á stjórnarskránni. En með vísan til þess að búið er að dæma að það hafi verið brot á stjórnarskránni þá er það sannfæring mín að við séum nú að brjóta stjórnarskrána með því að samþykkja þetta frv.

Að jafna kjör í landinu er okkar stefna og það að verið sé að leiðrétta kjör þessa hóps til jafns við samsvarandi hóp sem ekki er í sambúð, er réttlætismál og hefur ekkert að gera með það þó að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum stórauka réttindi og kjör öryrkja, lífeyrisþega og annarra í landinu.