Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 23:23:00 (3846)

2001-01-17 23:23:00# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[23:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að ég hefði fundið að því í ræðu minni að verið væri að takmarka völd löggjafarvaldsins. Nú geri ég mér afskaplega vel grein fyrir því eins og allir aðrir hv. þingmenn að stjórnarskrá landsins takmarkar að sjálfsögðu vald löggjafarvaldsins og á að gera það. Og þegar dómar falla sem lúta að stjórnarskránni ber löggjafarvaldinu að taka tillit til þeirra dóma og hlíta þeim.

Það sem ég var hins vegar að segja er að ég tel ekki rétt að ganga lengra af því tilefni en dómurinn gerir ráð fyrir. Ef menn vilja ganga lengra þá sé það pólitísk ákvörðun og á það lagði ég fyrst og fremst áherslu.

Það er misskilningur hjá hv. þm. að frv. gangi út á það að afla lagaheimildar til að skerða. Frv. gengur út á það að afla lagaheimildar til að bæta við en ekki til að skerða. (Gripið fram í.) Það væri nú gott ef hv. þm., sem er að lita á sér varirnar, væri þá upptekin við það en væri ekki ávallt að kalla hér fram í í hvert skipti sem einhver kemur hingað í ræðustól. Ég hlýt að fara fram á það við hæstv. forseta að settar verði reglur um það hér á Alþingi, miðað við þessi sífelldu frammíköll, að við sem viljum gjarnan tala fáum að tala.

Það er verið að bæta 25 þús. kr. við lágmarkið þannig að það verði 43 þús. Það er lagaheimild til að bæta við en ekki til að skerða.

(Forseti (ÍGP): Það skal tekið fram að forseti hefur margávítað 15. þm. Reykv. fyrir frammíköll og mun taka þetta mál fyrir á næsta forsætisnefndarfundi.)