Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 23:28:49 (3849)

2001-01-17 23:28:49# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[23:28]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú skal ég ekki fullyrða að ég hafi skrifað orð hæstv. utanrrh. nákvæmlega orðrétt niður. En svona skrifaði ég það niður sem hann sagði: ,,Er það virkilega svo að það eigi að takmarka vald löggjafans á að greiða einstaklingi bætur án tengingar við tekjur maka?`` Að takmarka vald löggjafans til þess. Og annað: ,,Það þarf að koma í veg fyrir að dómurinn hafi áhrif inn í aðra löggjöf í þessu landi.``

Nú hafa dómar iðulega áhrif og það er bara eðlilegt þegar dómur fellur í Hæstarétti að hann hafi áhrif. Og þegar dómur er byggður á stjórnarskrá og mannréttindasáttmála þá dreg ég mjög í efa að það sé okkar hlutverk að fara að reyna að snúa þar út úr meiningunni eða breyta þeirri túlkun.