Vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 10:53:11 (3873)

2001-01-18 10:53:11# 126. lþ. 61.94 fundur 260#B vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[10:53]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Samkvæmt lögum um Íbúðalánasjóð er gert ráð fyrir að hann eigi að standa undir eigin rekstri og ekki komi til framlög til hans af fjárlögum og úr ríkissjóði. Það er því á ábyrgð stjórnar Íbúðalánasjóðs að taka ákvarðanir um vexti af lánum sjóðsins þannig að það markmið náist.

Sjóðurinn fjármagnar sig með útboðum húsnæðisbréfa á markaði. Við vaxtaákvörðun ber sjóðnum og stjórn Íbúðalánasjóðs að taka mið af þeim lánskjörum sem sjóðnum bjóðast hverju sinni við sölu húsnæðisbréfa.

Hæstv. forseti. Það hefur orðið kerfisbreyting í hinu opinbera lánakerfi til húsnæðislána. Gamla kerfið sem hv. málshefjandi saknar svo mjög var orðið gjaldþrota. Það var skömmtunarkerfi sem átti ekkert skylt við nútímann. Mun eðlilegra er að aðstoð til fólks til að koma þaki yfir höfuðið komi í gegnum skattkerfið með vaxtabótum. Húsaleigubætur eru hins vegar ætlaðar til að koma til móts við það fólk sem þarf á félagslegri aðstoð að halda. Bótakerfi þessi, vaxtabæturnar og húsaleigubæturnar, eru tekjutengd miðað við fjölskyldutekjur þannig að reiknað er með því að þessi aðstoð sé þannig að hún komi til fjölskyldna.

Hins vegar er rétt að leiga er há á hinum almenna leiguíbúðamarkaði í Reykjavík sem stafar m.a. af því að það er lóðaskortur í Reykjavík og það er mikill aðflutningur fólks til Reykjavíkur. Það eru aftur á móti atriði sem er ekki hægt að bregðast við, hvorki hjá Íbúðalánasjóði né félmrh.