Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 11:43:41 (3881)

2001-01-18 11:43:41# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[11:43]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er gersamlega ósammála þessari túlkun hæstv. ráðherra. Ég man ákaflega vel þegar þetta stóð fyrir dyrum í þinginu og þá áttum við þingmenn samræður við fjölda fulltrúa ýmissa hagsmunasamtaka sem töldu að eðlilegt væri að ákveðin ákvæði kæmu þarna inn í. Og sett var upp orðalag sem náði yfir það, náði m.a. yfir það sem hefur komið hér til tals varðandi hæstaréttardóminn, þ.e. hjúskaparstöðu. Það er því alveg ljóst að þarna var um efnisbreytingar að ræða.

Þær breytingar sem voru teknar upp í stjórnarskrána voru auðvitað til þess að svara breytingum sem orðið höfðu á viðhorfum manna, breytingum sem koma fram annars staðar í löggjöf. Og það er ákaflega merkilegt að lesa það í hæstaréttardómnum að nákvæmlega þetta er það sem lagt er til grundvallar af hálfu meiri hluta dómsins. Hann vísar til ákvæða í stjórnarskránni en hann vísar líka til nýrra ákvæða um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna og það er eitt af því sem skiptir líka meginmáli í þessari niðurstöðu.

Herra forseti. Tímarnir breytast, viðhorfin breytast og skilningur okkar á því hvað mannréttindi eru breytist og það er Hæstiréttur sem túlkar það.