Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 18:31:23 (3967)

2001-01-18 18:31:23# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei sagt að ég sé óhress með þetta. Ég er nefnilega einstaklingshyggjumaður. Ég spyr þá sem vilja jafna lífskjörin hvernig þetta fari saman við hugsjónir þeirra. Ég spyr hv. þm. hvernig á því standi að hann er að berjast fyrir því að borga hátekjufólki bætur. Ég skil það nefnilega ekki. Ég skil það ekki.

Ég er í sjálfu sér fylgjandi einstaklingshyggju. Ég er það að sjálfsögðu. Það kemur inn á það hvort yfirleitt megi skattleggja menn mismunandi. Það er næsta skref sem ég geri ráð fyrir. Því var velt upp í Viðskiptablaðinu í dag hvort næsta skref yrði ekki, sem afleiðing af þessu, að banna mismunandi skattlagningu, hafa jafnvel nefskatt á allt liðið. Það er auðvitað næst á dagskrá, svona einstalingshyggja leiðir af sér ýmislegt, ekki bara gagnvart öryrkjum.

Ég var að spyrja félagshyggjufólkið, hv. þm. sem kenna sig við félagshyggju: Hvernig stendur á því að þeir berjast fyrir því að borga hátekjufjölskyldum auknar bætur, 1,5 millj. kr. eingreiðslu eða jafnvel 3 millj. kr. í eingreiðslu? Það er það sem ég ekki skil. (Gripið fram í: Það er sú upphæð sem var tekin af þeim.) Það er það sem ég ekki skil.