Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 15:44:02 (4044)

2001-01-22 15:44:02# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nafngreint þá aðila sem ég vitnaði til í andsvari áðan. Því er ekki hægt að segja að ég hafi ekki nafngreint þá.

Ég vil minna hv. þm. á, þó að hún hafi ekki verið komin á þing árið 1998, að þá var stjórnarandstaðan, sá þingmaður sem hér stendur og þeir félagar mínir hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Bryndís Hlöðversdóttir á þeirri skoðun að vægast sagt væri varhugavert að fara út í þessa lagasetningu þar sem að áliti sérfróðra manna væri líklega um mannréttindabrot að ræða. Þannig ætti alveg að vera ljóst að við höfum verið á þeirri skoðun að það standist ekki mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar að vera með þessa skerðingarreglu. Það hefur verið ljóst frá upphafi í þessu máli og er hér skjalfest í þingskjölum Alþingis að við höfum verið á þeirri skoðun alla tíð.