Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 17:22:55 (4058)

2001-01-22 17:22:55# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[17:22]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að dómur liggur fyrir og við því er brugðist. Þess vegna er þessi umræða að það er verið að ræða viðbrögð við dómnum, frv. sem lagt hefur verið fram til þess að fara að dómnum.

Árið 1990, sem ég rifjaði upp, þegar hv. þm. sat í ríkisstjórn féll dómur líka. Þá stóð þingmaðurinn að því að setja bráðabirgðalög til að ógilda áhrif dómsins. Þá voru ekki hróp um stjórnarskrárbrot. Þá voru ekki hróp um að það mætti ekki taka málið til umræðu á Alþingi. Þá sat hv. þm. og hélt í sinn ráðherrastól.