Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 17:35:40 (4066)

2001-01-22 17:35:40# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[17:35]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er Framsfl. að halda því fram að fólk sé ofhaldið ella væri þessi tekjutrygging ekki skert eins og Framsfl. er að berjast fyrir að fá hér staðfest í þinginu. Þetta er staðreynd.

Og ég spyr: Hvar hefur það verið rætt á vettvangi þessa flokks að það sé réttlætanlegt að dæma fólk sem tapað hefur starfsorku sinni til varanlegrar fátæktar? Og ég vil beina enn annarri spurningu til hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Hvar var það rætt í Framsfl. og hvenær að rétt væri að beita fyrningarreglum til hins ýtrasta til að öryrkjar fengju það sem þeim réttilega ber? Og hvernig ætlar hv. þm. að réttlæta það að þessir peningar verði hafðir af öryrkjum eins og ríkisstjórnin ætlar að gera með því frv. sem hér er til umfjöllunar?