Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 17:36:48 (4067)

2001-01-22 17:36:48# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[17:36]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það mætti halda eftir ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar að það væri verið að skerða kjör öryrkja frá því sem verið hefur. (ÖJ: Já, frá dómnum.) Því er auðvitað víðs fjarri. (ÖJ: Nei.) Ástandið eftir að frv. hefur verið samþykkt, ef það verður samþykkt óbreytt, verður þannig að sá hópur öryrkja sem málið fjallar um fær meira en hann hafði fyrir dóm þannig að það er ekki verið að skerða það ástand heldur að bæta við. Hv. þm. telur að það hafi átt að bæta meiru við og það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig.

En við teljum eðlilegt að ríkisvaldið nýti það svigrúm sem það hefur til að bæta kjör þess fólks sem hefur minnst. (Gripið fram í.) Og þar greinir mig á við hv. þm. Ögmund Jónasson. (ÖJ: Það gerið þið ekki.)

(Forseti (GuðjG): Það væri heldur til bóta, þar sem andsvaratíminn er aðeins ein mínúta, ef ræðumenn fengju að tala truflunarlítið.)