Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 19:45:12 (4070)

2001-01-22 19:45:12# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[19:45]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég held að enginn velkist í vafa um að hér er til umræðu frv. til laga sem er flestum öðrum frv. mikilvægara að því leyti að hér er tekist á um grundvallarmál. Það er staðföst sannfæring okkar í stjórnarandstöðunni, og styðjumst við þar við lögfræðilegar álitsgerðir og mat margra aðila sem vel þekkja til, að frv. stríði gegn stjórnarskrá Íslands auk þess sem það fer á svig við niðurstöðu Hæstaréttar landsins.

Af þeim sökum hefur verið mjög vel vandað til allra vinnubragða af hálfu stjórnarandstöðunnar í þessu máli og nál. minni hlutans ber þess vott. Í minni hluta heilbr.- og trn. þingsins sitja hv. þingmenn Þuríður Backman, Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir en Guðjón A. Kristjánsson fulltrúi Frjálslynda flokksins hafði áheyrnarsæti í nefndinni og kom að vinnu álitsgerðarinnar.

Ég nefni þessa þingmenn til sögunnar vegna þess að þeir hafa allir mjög mikla reynslu á þessu sviði. Í niðurstöðu sinni undir lok álitsgerðarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Niðurstaða Hæstaréttar í því máli sem hér hefur verið reifað og frumvarp ríkisstjórnarinnar byggist á var sú að óheimilt væri að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap á grundvelli tekna maka. Hæstiréttur byggir þessa niðurstöðu á 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar auk annarra lagaraka. Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar mælir, þrátt fyrir áðurgreinda niðurstöðu Hæstaréttar, fyrir um áframhaldandi skerðingu tekjutryggingar á grundvelli tekna maka. Það felur þar á ofan í sér afturvirkni lagaákvæða, ef samþykkt verður, og gengur út á að fyrningu verði borið við í stað þess að bæta að fullu það sem haft hefur verið af viðkomandi hópi öryrkja öll sjö árin. Minni hlutinn telur að með framlagningu frumvarpsins geri ríkisstjórnin tilraun til að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar og að frumvarpið feli í sér beint brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar.``

Herra forseti. Þessi afstaða er mjög afdráttarlaus. Og afdráttarlaus afstaða hefur líka komið fram frá öllum helstu samtökum launafólks á Íslandi. Ég vísa þar í álitsgerðir og stuðningsyfirlýsingar frá Alþýðusambandi Íslands, í álitsgerðir og stuðningsyfirlýsingar frá BSRB, frá BHM, frá Kennarasambandi Íslands, frá Landssamtökum eldri borgara. Ég vísa til ummæla og afstöðu sem fram hefur komið frá forustumönnum stúdenta í stúdentaráði og öðrum hreyfingum námsmanna. Þennan almenna vilja, þjóðarvilja höfum við fengið staðfesta vísbendingu um í skoðanakönnun sem framkvæmd hefur verið þar sem spurt var um afstöðu þjóðarinnar til þessa máls. Rúm 82% lýstu samstöðu með Öryrkjabandalaginu og stjórnarandstöðunni í þessu máli. Þetta er ótvíræð afstaða þjóðarinnar.

Málið hefur verið reifað hér á þingi og ég verð að segja að eftir því sem ég hlusta meira á umræðuna finnst mér augljósara með hverjum klukkutímanum sem líður að tvennt er að gerast. Í fyrsta lagi tilraun ríkisstjórnarinnar til að gera þetta einfalda, skýra mál eins flókið og kostur er. Hver stjórnarliðinn á fætur öðrum hefur stigið hér í pontu með hártoganir og útúrsnúninga til að reyna að drepa á dreif einföldum staðreyndum. En í öðru lagi finnst mér nú vera deginum ljósara að ríkisstjórnin og sá meiri hluti sem hún styður sig við á Alþingi sé staðráðinn í að beita hnefarétti í þessu máli. Þetta tvennt finnst mér augljóst í þessari umræðu, annars vegar tilraunir til að gera einfalt mál flókið og drepa því dreif og hins vegar sá ásetningur stjórnvalda að beita hnefarétti í þessu máli.

Hvers vegna segi ég að þetta mál sé einfalt? Og þá langar mig til að byrja á því að spyrja annarrar spurningar, grundvallarspurningar: Um hvað fjallar þetta mál?

Undanfarin nokkur ár hafa menn deilt um það bæði á Alþingi og úti í þjóðfélaginu hvort heimilt sé að skerða tekjur öryrkja, að skerða þá tekjutryggingu sem þeir njóta samkvæmt almannatryggingalögum vegna tekna maka þeirra. Og menn hafa spurt þessarar spurningar með hliðsjón af stjórnarskrá landsins.

Fyrir tveimur árum vaknaði önnur spurning. Hún var þessi: Hefur sú skerðing sem átt hefur sér stað undangengin ár stuðst við lög landsins? Menn fóru að draga þetta í efa og þetta kom upp í umræðu á Alþingi.

Um þetta tvennt spurði Öryrkjabandalag Íslands og fékk lögmann til að beina þessum spurningum til dómstóla. Niðurstaða dómstólanna var skýr og afdráttarlaus. Svarið við báðum þessum spurningum var afdráttarlaust. Í fyrsta lagi var því svarað til á afdráttarlausan hátt að lagastoð hefði skort á árabilinu 1994 til ársloka 1998 til að beita skerðingarákvæðum. Í lögunum skorti stoð fyrir reglugerð sem skerti þessa tekjutryggingu. Um þetta deilir ekki nokkur maður, enginn. Allir dómarar í Hæstarétti voru á þessu máli. Þetta var afdráttarlaust.

Hin spurningin sem Öryrkjabandalagið spurði og lögmaður þess var þessi: Er heimilt á grundvelli tiltekins málsliðar í tiltekinni lagagrein í tilteknum lögum að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega vegna tekna maka hans? Þetta var skýr, markviss spurning og svar réttarins var afdráttarlaust. Þetta er óheimilt, var svarið.

Og þótt menn leggist hér í miklar skýringar og útúrsnúninga á dómsorðinu þá er svarið dráttarlaust við þessum skýru spurningum. Dómsorðið sjálft er tíu línur á blaði. Og í dómsorðinu er því svarað að óheimilt sé að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega vegna tekna maka með tilvísun til þeirrar lagagreinar sem spurt var um. Þetta er skýrt og þetta er afdráttarlaust.

Reyndar var það svo að þegar niðurstaða lá fyrir þá tóku allir þessa skýru afstöðu Hæstaréttar landsins bókstaflega. Tryggingastofnun bjó sig undir að greiða út bæturnar, Morgunblaðið skrifaði sinn leiðara um þessa afdráttarlausu niðurstöðu Hæstaréttar og Jón Steinar Gunnlaugsson, sá maður sem ríkisstjórnin fékk til að leiða hóp til að leita leiða um túlkun þessa dóms, velktist heldur ekki í vafa um niðurstöðu þessa dóms. Hann mætti í sjónvarpssal og lýsti því yfir frammi fyrir alþjóð hver þessi niðurstaða væri. Hann sagði, með leyfi forseta, eitthvað á þessa leið:

Ég vil byrja á því að óska starfsbróður mínum til hamingju með þennan dóm því að óneitanlega var þetta mikill sigur fyrir hann og sjónarmið sem hann hefur fært fram. Ég er að vísu ósammála þessum dómi, lögfræðilega ósammála honum.

En niðurstaðan er svo skýr að Jón Steinar Gunnlaugsson sér ástæðu til frammi fyrir alþjóð að óska starfsbróður sínum til hamingju með niðurstöðuna. Hann er ósammála niðurstöðunni en hann fullyrðir að niðurstaða sé fengin fram. Hann er ósammála henni, en niðurstaðan liggur fyrir.

En ríkisstjórnin fékk honum hins vegar það verkefni ásamt nokkrum félögum öðrum að leita leiða til að koma þessum dómi í framkvæmd og út á það hefur þetta mál síðan allt gengið, að leita leiða, kanna hvaða leiðir séu færar. Þannig held ég að það hafi verið orðað. Og til að gera hvað? Til að láta öryrkja njóta góðs af niðurstöðu dómsins? Nei. Til að hafa af öryrkjum hluta af þeim greiðslum sem þeim ber. Og síðan koma þeir hver á fætur öðrum og segja að þetta séu engar heilagar tölur, þegar þeir skerða tekjutrygginguna, færa hana niður úr rúmum 32 þús. niður í 25 þús. Þetta er ekkert heilagt! Þeir segja að þeim hafi verið falið að glíma við lögfræðileg viðfangsefni en reiða fram pólitíska niðurstöðu sem er talan, sem er upphæðin, sem bæði hæstv. forsrh. og þessir sérfræðingar hans hafa sagt að sé viðfangsefni Alþingis.

Hin himinhrópandi mótsögn er að sömu menn sem segja að sér hafi verið falið að glíma við lögfræðileg álitaefni reiða fram hina pólitísku lausn. Þetta er mótsögn. Þetta er himinhrópandi mótsögn frá aðilum sem byrjuðu á því að óska Öryrkjabandalaginu og fulltrúum þess til hamingju með niðurstöðu. Hana vefengdu þeir ekki. En síðan fóru þeir að leita leiða ekki bara til að lækka upphæðirnar, til að hafa af öryrkjum 7.500 kr., heldur einnig til að leita leiða til að fyrna kröfurnar. Þetta er svo fáheyrt, svo fáheyrður er sá gangur sem verið hefur á þessu máli að engu tali tekur.

Öryrkjar og Öryrkjabandalagið leita réttar síns frammi fyrir dómstólum. Það dregst að fá niðurstöðu dómstóla. Og þegar niðurstaða liggur fyrir reynir ríkisstjórnin og ríkisvaldið að flækjast fyrir, tefja málið. Því er skotið til Hæstaréttar og aftur er kveðið upp úr og niðurstaðan er afdráttarlaus. Og hvað gerist þá? Þá er ákveðið að beita fyrningarákvæðum í lögum til að hafa þessar greiðslur af fólkinu. Og þetta ætlar meiri hluti Alþingis að láta yfir sig ganga.

[20:00]

Í fyrsta lagi er þetta náttúrlega lögbrot en menn víla ekki fyrir sér að fremja eitt lögbrotið enn þegar svona er farið með stjórnarskrána og niðurstöðu Hæstaréttar. En ég spyr um hina siðferðilegu afstöðu í þessu máli. Finnst stjórnarmeirihlutanum það virkilega ganga upp í eigin samvisku að koma svona fram gagnvart fólki? Finnst mönnum það ganga upp að koma fram á þennan hátt? Mér finnst það ekki ganga upp.

Ég á við þetta, herra forseti, þegar ég segi að augljóst sé að ríkisvaldið sé staðráðið í að beita hnefaréttinum gagnvart öryrkjum í þessu máli. Og þetta er ástæðan, sú vanvirðing sem Hæstarétti Íslands er sýnd, stjórnarskrá landsins og einnig þessi siðferðilega blinda sem menn virðast slegnir og kemur fram í þessu makalausa máli, sem veldur því að stjórnarandstaðan hefur haft í frammi eins kröftug mótmæli og okkur er unnt við þessa umræðu á Alþingi.

Herra forseti. Þessari umræðu er ekki lokið. Við eigum enn eftir að ljúka 2. umr. um málið og síðan kemur 3. umr. Ég hef ekki lokið við að segja allt sem ég vildi sagt hafa um þetta mál og á eftir að fara betur í saumana á ýmsum þáttum, t.d. peningalegum þáttum. Ég á eftir að svara mönnum á borð við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson og öðrum fulltrúum Framsfl. og Sjálfstfl. sem spyrja okkur í forundran hvað valdi því að við viljum hækka og bæta kjörin hjá þeim sem best standa í samfélaginu en ekki snúa okkur að hinum sem hafi þau lökust. Ég hef verið að vekja athygli á því við umræðuna að þessar rúmlega 7.500 kr. sem ríkisstjórnin ætlar að hafa af öryrkjum kemur til með að kosta ríkissjóð innan við 40 millj. kr. á ári. Þetta er nú samviskan. Hún er ekki meira metin hjá þessari ríkisstjórn, þannig að þetta eru ekki peningaleg rök. Þetta eru einhver önnur rök. Það eru pólitísk rök og pólitískar forsendur en því nefni ég þessa tölu að sömu menn og ætla að gera þetta koma síðan til okkar og koma hér í ræðustól og beina þeirri spurningu til okkar hvorn valkostinn við viljum virkilega taka, að hjálpa þeim sem hafa það skár í hópi öryrkja eða koma með verulegar kjarabætur til alls þorra öryrkja. Þetta eru stærðirnar sem við erum að tala um, og skerðingarmörkin, sem hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þóttu réttmæt, að byrja að skerða tekjutrygginguna, eru um 133 þús. kr., langt undir meðaltekjum hjá íslensku launafólki. En þar finnst honum í lagi að byrja að skerða tekjutryggingu fólks sem hefur tapað starfsorku sinni, öryrkjum. Þetta er fullkomið siðleysi. Það er alveg rétt að tekjutryggingin dettur ekki út fyrr en hún er komin í um 270 þús. kr. eða þar um bil. Það er langt innan við þau kjör sem þeir sem sitja í þessum sal búa við.

En finnst mönnum virkilega í lagi, ég spyr, að dæma öryrkjann til þess að fara niður úr þeim smánarlegu 51 þús. kr. sem honum er ætlað ef makinn er með meira en 133 eða 134 þús. kr. á mánuði? Þetta eru allt spurningar sem á eftir að reifa betur við umræðuna, bæði við 2. umr. málsins sem engan veginn er lokið og að sjálfsögðu einnig við 3. umr. málsins.