Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:06:09 (4071)

2001-01-22 20:06:09# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:06]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því að í niðurlagi ræðu sinnar sagði hv. þm.: Hin smánarlegu 51 þús. kr. á mánuði. Það er sjálfsagt skoðun hans að þessi upphæð sé smánarleg. En hvorki hann né aðrir stjórnarandstæðingar hafa lagt til að hækka þetta. (Gripið fram í: Það er rangt.) Hvorki hann né aðrir stjórnarandstæðingar hafa í þessari umræðu eða með tillöguflutningi lagt til að hækka þetta. (Gripið fram í.)

Ég vil síðan segja, herra forseti, bara til að hafa tölurnar á hreinu og að menn velkist ekki í vafa um hverjar þær eru, síðan getur hver og einn haft sína skoðun á því hve tölurnar eru háar eða lágar, að full tekjutrygging er greidd hjónum eða sambúðarfólki með tekjur allt að 1.611 þús. á ári og til viðbótar við þær tekjur eru tekjutryggingin og grunnlífeyririnn, 620 þús. kr. Tekjutrygging byrjar því ekki að skerðast fyrr en eigin tekjur og bætur eru samanlagt komnar yfir 2,2 millj. kr. og tekjutryggingin skerðist ekki að fullu fyrr en tekjur og bætur samanlagt eru orðnar nærri 3,3 millj. kr. Þetta þýðir að lágmarki 133 þús. kr. á mánuði plús 52 þús. eða um 185 þús. kr. á mánuði og með frv. er lágmarkið sett þannig að þegar tekjutrygging er færð niður úr 51 þús. í 43 þús., þá er það vegna þess að heimilistekjur að viðbættum bótum eru aldrei lægri en 195 þús. kr. á mánuði.