Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:45:40 (4107)

2001-01-22 22:45:40# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich hefur fært mjög rækilega rök fyrir máli sínu. Hann vill sannfæra okkur um að skerðingaráform ríkisstjórnarinnar standist stjórnarskrá og brjóti ekki gegn úrskurði Hæstaréttar Íslands. Hann hefur fært fyrir þessu lagaleg rök, að það standist að taka 7.500 kr. af tekjutryggingunni, færa hana niður úr 32.500 kr. niður í 25.000 kr. og fyrir því séu lagaleg rök.

Hv. þm. talaði einnig um pólitísk rök og sagði að hann vildi forgangsraða á annan veg og hjálpa þeim sem minna mættu sín, í hverjum málaflokki bætti hann síðan við.

Ekki stenst þetta nú alls kostar. Hér fyrir jólin voru tillögur frá stjórnarandstöðunni um að bæta kjör þeirra öryrkja sem lakast standa. Ég man ekki betur en hv. þm. greiddi atkvæði gegn þeim tillögum. Ég man ekki betur en að breytingar sem hér voru keyrðar í gegn fyrir fáeinum mánuðum lækkuðu skatta af dýrustu bifreiðum meira en af þeim ódýrustu. Þessi röksemdafærsla hv. þm. gengur þannig ekki alveg upp. Síðan vefst það fyrir mér að skilja hvers vegna menn ganga svo hart fram í þessu máli þegar upphæðirnar eru ekki hærri. Ég spyr hann út í þetta stóra prinsipp og pólitíska markmið sem Sjálfstfl. beitir sér fyrir í þessu máli, að hafa 7.500 af tekjutryggingu öryrkja.

Annað sem ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. um er varðandi fyrninguna. Hver eru hin lagalegu rök að mati hv. þm. fyrir því að beita fyrningarreglu til að hafa úrskurðaðar réttarbætur af öryrkjum? Hver eru hin lagalegu rök?