Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 23:12:24 (4112)

2001-01-22 23:12:24# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[23:12]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að gera athugasemd við mál hæstv. ráðherra. Því hefur ekki verið haldið fram af stjórnarandstöðunni að óþarft hafi verið að setja lög um málið en hins vegar hafi það ekki verið forsenda þess að greiða út bætur þann 1. janúar sl. til þessa hóps sem málið varðar, sem 5. mgr. 17. gr. nær til. Það er mjög mikilvægt að halda þessu til haga vegna ræðu hæstv. ráðherra.

Hins vegar er jafnljóst að setja þyrfti lög í kjölfarið um rétt annarra hópa er kynnu að eiga afleiddan rétt af dómi Hæstaréttar. Vegna orða hæstv. ráðherra vil ég líka minna á að málið fjallar um mannréttindi. Væri ekki eðlilegt að túlkun ríkisstjórnarinnar væri mannréttindunum í hag, sérstaklega í ljósi þess að það er nú svolítill vafi í málinu, a.m.k. eftir því sem fram hefur komið í máli ráðherrans um túlkun á þessum dómi? Er þá ekki eðlilegt af ríkisvaldinu að túlka dóminn mannréttindasjónarmiðinu í hag, herra forseti?

Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda því til haga hér í umræðunni að ríkisstjórnin er með sínu pólitíska mati að taka áhættu hvað mannréttindasjónarmiðið varðar.