Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 11:14:37 (4152)

2001-01-23 11:14:37# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[11:14]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði í ræðu sinni hvernig ætti að greiða tekjutrygginguna án laga. Ég hefði talið að hv. þm. þyrfti ekki að spyrja um þetta af því að það kom skýrt fram í nefndinni og í nefndarvinnunni. Þar voru starfsmenn Tryggingastofnunarinnar og forstjóri hennar og þeir staðfestu að þeir skildu dóm Hæstaréttar um að tekjutenging við tekjur maka væri óheimil þegar tekjutrygging væri annars vegar og að unnt hefði verið að greiða samkvæmt þeim dómi. Það var heimilt að greiða tekjutrygginguna en ekki skerða hana. Það hefði tekið dagpart að útbúa reglugerð með frítekjumörkum og það hefði þurft að ýta á einn takka á tölvu til þess að fá greiðsluna út úr tölvunum.

Hv. þm. Ef menn taka fé í heimildarleysi ber að endurgreiða það hvort sem það eru öryrkjar sem eiga í hlut eða aðrir.