Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 12:42:04 (4164)

2001-01-23 12:42:04# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[12:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er þá ekki meiri félagshyggjumaður en svo að hann telur að einstaklingshyggjan sem kemur fram í dómi Hæstaréttar réttlæti það að hækka tekjur fjölskyldu sem er núna með 418 þús. kr. í tekjur upp í 451 þús., og er jafnvel borgað með sköttum fjölskyldunnar sem er með 216 þús. kr. á mánuði óskert, þ.e. báðir öryrkjarnir eigi að fá nákvæmlega sama úr sjóðum almennings eftir sem áður þó annar sé giftur verkamanni með 165 þús. fyrir dagvinnu og yfirvinnu, þetta eru meðallaun verkamanna, á meðan hinn, forstjórinn, er með 400 þús. kr. á mánuði og sá öryrki nýtur að sjálfsögðu hárra tekna og eigna maka síns. Hv. þm. finnst þetta í lagi félagslega og er ekkert hnugginn yfir því að þessi einstaklingshyggja hafi þau áhrif á jafnaðarmennskuna að hún er eiginlega orðin tóm.