Fundarhlé

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 20:52:49 (4227)

2001-01-23 20:52:49# 126. lþ. 64.92 fundur 267#B fundarhlé# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[20:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þætti vænt um ef mér leyfðist að gera stutta athugasemd við fundarstjórn forseta. Mér þætti líka vænt um að ég fengi að flytja hana ótruflaður.

Fyrir nokkru síðan gerðist það hér að ég hafði nýlega hafið ræðu, herra forseti, hafði látið það koma fram í máli mínu að mér þætti vænt um að tilteknum þingmönnum væri gert aðvart um að mér þætti gott að þeir væru viðstaddir en hugðist síðan halda áfram ræðu minni, enda var mér ekkert að vanbúnaði að gera það og ætlaði ekki að gera það að neinni frágangssök þó að viðkomandi menn væru ekki til staðar eða kæmu eitthvað seinna.

Þá mun svo hafa borið til, herra forseti, að á bak við mig höfðu óvænt orðið forsetaskipti í stólnum og var skyndilega lamið í bjöllu og fundinum frestað án þess að ég væri ávarpaður sérstaklega, án þess að ég væri spurður að því hvort ég væri tilbúinn til að gera hlé á máli mínu eða spurður hvort ég ætti langa ræðu eftir. Ég held að ég megi fullyrða að þetta er fordæmalaust í mínu minni hér á þinginu. Að minnsta kosti hefur þetta aldrei orðið áður í þeim tilvikum sem ég hef verið í ræðustóli og svona hefur staðið á að gera hefur þurft hlé á fundi. Mér þótti þetta heldur óþægilegt, herra forseti.

Nú er það svo að ég vil gjarnan mega trúa því að forseta hafi orðið þetta á í fljótræði og hugsunarleysi og ég ætla þar af leiðandi að bjóða forseta upp á að biðja mig og þingið afsökunar og verði það gert, þá verða ekki frekari eftirmál af minni hálfu.