Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 21:44:31 (4237)

2001-01-23 21:44:31# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[21:44]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Búið er að ræða oft og mikið um dómsniðurstöðu Hæstaréttar sem við í stjórnarandstöðunni viljum virða. Við teljum að frá 1. jan. á þessu ári hefði átt að greiða öryrkjum í hjúskap heildarupphæð upp á 51 þús. kr. óháð tekjum maka. Stjórnarliðar hafa hins vegar ákveðið að 43 þús. kr. sé upphæðin sem öryrkjar eigi rétt á óháð tekjum maka. Engin sérstök rök eru færð fram hjá stjórnarliðum fyrir þessari skerðingu upp á 7.500 kr. Sú tala virðist dregin upp úr hatti. Lækkun tekjutryggingar niður í 25 þús. kr. er bara svo hentug tala. Annar rökstuðningur hefur ekki komið fram.

[21:45]

Stjórnarandstaðan er þeirrar skoðunar að greiða beri út samkvæmt hæstaréttardómi og rétt sé að gera skýr skil milli framtíðar og fortíðar í þessum málum.

Í 72. gr. stjórnarskrárinnar segir m.a. að eignarrétturinn sé friðhelgur. Það stendur í þessari bók sem inniheldur stjórnarskrá lýðveldisins. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson dró það fram í umræðum í gærkvöldi að öll afturvirkni í frv. ríkisstjórnarinnar væri eignaupptaka og gengi gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.``

Þegar hæstaréttardómur um málið kveður á um að ólögleg skerðing hafi verið viðhöfð, í þessu tilfelli öryrkja í hjúskap, og þar sem um peningagreiðslu er að ræða, þ.e. tekjutryggingu öryrkja, þá hefur öryrkjum verið dæmt að þeir sem málið varðar eigi inni eign eftir niðurstöðu hæstaréttardómsins. Þeir eiga eign inni hjá ríkinu, í þessu tilviki peningaupphæð, misháa eftir stöðu öryrkjans og með hliðsjón af þeim tíma sem hæstaréttardómurinn tekur til. Þessi eignarréttur er friðhelgur skv. 72. gr. stjórnarskrá lýðveldisins. Hann má ekki skerða. Nú á að lögfesta að skerðingarákvæði verði afturvirk. Það á að lögfesta með frv. ríkisstjórnarinnar að skerðingarákvæði verði afturvirk. Það á sem sagt að ganga á þennan eignarrétt. Í skýringum Hæstaréttar segir m.a. að ,,skylt sé að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu``. Eftir hverju? Jú, ,,eftir fyrir fram gefnu skipulagi, sem ákveðið sé á málefnalegan hátt``.

Ég tel að Hæstiréttur leggi með þessum orðum áherslu á og gefi viðvörun um að dæmdar bætur séu eignarréttindi í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og skilyrði sé að öll takmörkun sé eftir fyrir fram gefnu skipulagi og geti ekki virkað aftur fyrir sig. Ég held að Hæstiréttur sé að vara við því að það sé búið að dæma öryrkjum eignarréttindi og þau verði ekki skert afturvirkt. Slíkt mætti aðeins með fyrir fram gefnu skipulagi. Þannig má ljóst vera að öll afturvirkni er skerðing, upptaka á eign sem öryrkjum hafi verið dæmd í þessu máli.

Í ljósi þessarar niðurstöðu sem ég hef komist að, m.a. út frá málflutningi hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar hér í gær --- ég hef ekki heyrt nein andmæli stjórnarliða við þeim málflutningi --- og einnig þess sem ég vitnaði til, að eftir fyrir fram gefnu skipulagi skuli unnið, vil ég í lokin spyrja þá lögfræðinga í stjórnarliðinu, sem sumir þingmenn stjórnarliða hafa byggt afstöðu sína og sannfæringu á, hvort þeir telji að dæmdar peningabætur séu eign þeirra öryrkja sem málið varðar eða hvort skerða megi þessa eign þrátt fyrir ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar um að eignarrétturinn sé friðhelgur. Ég beini þessari spurningu til löglærðra manna í stjórnarflokkunum. Þeir hafa verið nefndir til sögunnar í ræðum hv. þm. stjórnarflokkanna. Þeir hafa lýst því yfir að vegna þess hve margir löglærðir í stjórnarflokkunum hafi túlkað dóminn svo samræmdist frv. þá standi þeir í þeirri meiningu að þeir væru ekki að festa í lög nein ákvæði sem stangist á við ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég er ósammála því. Verði þetta fest í lög þá tel ég brotið á eignarréttarákvæðum.

Ef engir löglærðir stjórnarliðar eru við þessa umræðu á Alþingi þá væri mér svo sem þægð í því að hlýða á rök og skýringar þeirra sem ekki eru löglærðir í stjórnarliðinu fyrir því að peningabætur sem öryrkjum hafa verið dæmdar séu ekki eign þeirra og þær megi skerða þrátt fyrir 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ég óska eftir rökum gegn þessum rökum mínum.