Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 21:51:50 (4238)

2001-01-23 21:51:50# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[21:51]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þessi umræða er farin að snúast eftir einkennilegum áttum. Þetta er í fyrsta skipti frá því að ég kom til setu á hinu háa Alþingi sem nokkur ríkisstjórn hefur haft svo vonda samvisku, svo nagandi efa um að málið sem hún flytur sé í raun nægilega gott og standist stjórnarskrána, að hún fari þá leið að óska eftir sérstöku heilbrigðisvottorði frá Hæstarétti Íslands.

Með öðrum orðum, herra forseti: Röksemdir okkar í stjórnarandstöðunni hrína svo á stjórnarliðinu að það er farið að efast um að háttsemi þess í þessum sölum standist stjórnarskrána. Til að reyna að fá eins konar löggilt heilbrigðisvottorð er farin sú leið að skrifa til vildarvina í forsetadæmi Hæstaréttar og biðja um svar.

Ég hef ekki áður orðið þess áskynja að ríkisstjórnin sé svo hrædd um eigin verk, svo hrædd við vilja fólksins og jafnviss um að hún sé e.t.v. að gera rangt.

Herra forseti. Það sem hér gerðist í kvöld er algerlega óþekkt í þeim löndum sem við höfum borið okkur saman við. Ég hlýt auðvitað að vekja eftirtekt á því, herra forseti, að bréfið sem hæstv. forseti las upp áðan frá forseta Hæstaréttar er algert einsdæmi. Ég veit engin dæmi þess að löggjafarvaldið hafi með slíkum hætti reynt að fá fram úrskurð hjá dómstólum landsins um hvað þeir væru í reynd að segja. Í þessu máli skiptir miklu, herra forseti, að það er ekki Hæstiréttur sem skrifar þetta bréf. Það er forseti Hæstaréttar og það verður að gera skýran greinarmun á honum og Hæstarétti sjálfum.

Ég vek athygli á því að sá sem skrifar þetta bréf er einn þeirra sem voru ósammála, í séráliti sem skilað var af tvímenningum í Hæstarétti, meiri hluta Hæstaréttar. Þarf það þá að koma einhverjum á óvart, herra forseti, að sá maður haldi áfram fast við þá skoðun sem hann hefur áður rökstutt á tveimur blaðsíðum og segi að sú aðferð sem hér sé viðhöfð brjóti ekki í bága við stjórnarskrána? Að sjálfsögðu ekki. Forseti Hæstaréttar væri haldinn tvíhyggju ef hann ætti á einum mánuði að skipta um skoðun því að ef forseti Hæstaréttar hefði komist að annarri niðurstöðu í þessu bréfi, þá hlyti maðurinn að vera ,,schizophren``, þá hlyti hann að hafa skipt um skoðun á þessum fjórum vikum sem liðnar eru frá því að hann sendi frá sér sérálitið. Þetta þarf því engum að koma á óvart, herra forseti.

Það sem kemur hins vegar á óvart er að bréfið er sent í dag til forseta Hæstaréttar sem hefur tekið skýlausa afstöðu gegn meiri hlutanum og svarið kemur í dag. Ég hlýt sem einn af þeim sem fara með löggjafarvaldið að spyrja: Var haldinn fundur með dómurum Hæstaréttar um þetta mál? Nú ber svo vel í veiði að hæstv. forsrh. er kominn hér í gættina. Hann gæti e.t.v. upplýst okkur um það hvort þetta bréf var sent með samþykki, vitund og vilja allra dómara Hæstaréttar. (Gripið fram í: Í nafni réttarins.) Það er kallað fram í hér að það sé sent í nafni réttarins en það er ekki svo. Þetta bréf er ekki sent í nafni Hæstaréttar, herra forseti. Það er sent í umboði forseta Hæstaréttar og á því er auðvitað skýr greinarmunur.

Hitt er ljóst, herra forseti, að ég tel, eins og þetta horfir við mér, að bréf Garðars Gíslasonar, forseta Hæstaréttar, staðfesti í reynd endanlega að það er réttur skilningur hjá stjórnarandstöðunni að dómur Hæstaréttar feli í sér að öryrki í sambúð hafi lögvarinn rétt til að fá úr opinberum sjóðum 51 þús. kr., ekki 43 þús. eins og stjórnarliðið heldur fram, heldur hafi hann lögvarinn rétt til að fá úr opinberum sjóðum 51 þús. kr. Í bréfinu segir, með leyfi forseta:

,,Í dóminum var aðeins tekin afstaða til þess, hvort slík tekjutenging eins og nú er mælt fyrir um í lögum sé andstæð stjórnarskránni. Svo var talið vera.``

Að mati forseta Hæstaréttar er sem sagt talið andstætt stjórnarskránni að beita tekjutengingu sem skerðir þennan lágmarksrétt til 51 þús. kr. Það má því ekki hafa minni tekjutryggingu en 33 þús. kr. miðað við að grunnörorkulífeyrir sé 18 þús. kr. Það má ekki hafa tekjutryggingu minni en 33 þús. til þess að ná upp í þessa upphæð.

Herra forseti. Ég tel vegna þessa að bréf forseta Hæstaréttar styðji það sem við höfum sagt allan tímann. Hins vegar vil ég að það komi skýrt fram að það eru kannski ekki svo veigamikil rök með máli okkar vegna þess að hér er auðvitað um að ræða mann sem tók afstöðu með minni hlutanum. Ég rifja samt upp að ég hef áður í ræðum mínum sýnt fram á að sérálit minni hlutans felur að mínu viti í sér margar staðfestingar á því að skilningur okkar á dómi Hæstaréttar hafi verið réttur.

Ég verð þó að segja, herra forseti, að það er dæmalaust að bréf af þessu tagi skulu koma hingað inn í umræðu sem þessa. Það hefur enga þýðingu. Þó að ég telji að það styðji málstað okkar vil ég samt vera svo vinsamlegur gagnvart stjórnarliðinu að taka fram að ég tel að bréfið hafi enga þýðingu. Það er auðvitað lykilatriði að löggjafarvaldið fái tóm til þess að ljúka verki sínu án afskipta dómsvaldsins sem hugsanlega þarf að fjalla aftur um þetta mál, jafnvel í náinni framtíð. Það held ég, herra forseti, að sé lykilatriði sem vert er að hafa í huga.

Að þessu bréfi frátöldu, herra forseti, vil ég nefna þrennt sem ég get ekki sætt mig við í frv. þó það hafi komið fram áður.

Í fyrsta lagi tel ég ekki heimilt, og ég er andvígur því eftir dóm Hæstaréttar, að menn lækki þá upphæð sem við teljum að sé í reynd lögvarinn réttur einstaklingsins við þessar aðstæður til að fá greitt úr opinberum sjóðum úr 51 þús. kr. niður í 43 þús. kr. Ég er andvígur því eins og hér hefur margoft komið fram.

Ég tel í öðru lagi, herra forseti, að sú regla sem notuð er til þess að fyrna kröfur öryrkja samkvæmt frv. sé röng. Ég tel að hún sé a.m.k. siðferðilega röng, herra forseti. Það hefur áður komið fram í máli okkar sem hér höfum talað af hálfu stjórnarandstöðunnar að við álítum siðferðilega rangt að fyrna mannréttindabrot. Það er alveg ljóst að dómur Hæstaréttar gekk út á að brotið hefði verið gegn mannréttindum öryrkja og við teljum að slík brot fyrnist ekki. Og við teljum að ríkisstjórnin hefði átt að sýna þann siðferðilega styrk að lýsa því yfir af eigin hvötum, að eigin frumkvæði, að hún hygðist greiða öryrkjum sjö ár aftur í tímann.

[22:00]

Í þriðja lagi, herra forseti, er ljóst að þetta frv. felur í sér afturvirkni sem ekki er hægt að fallast á. Dómur Hæstaréttar felur í reynd í sér að ríkið hafi með ólögmætum hætti tekið af öryrkjum fémæti aftur í tímann. Auðvitað sjá allir hugsandi menn að eftir þennan dóm verður ríkið að greiða þessa peninga til baka. Þá ber svo við að nota á ný lög þar sem er að finna nýjar skerðingar við útreikning á hluta kröfunnar. Þetta, herra forseti, tel ég í reynd ekki fela í sér neitt annað en upptöku á eignum viðkomandi einstaklinga.

Þegar dómurinn fellur verður til krafa sem byggist á því að sannað þyki að ríkið hafi ekki staðið í skilum við tiltekna einstaklinga í fortíðinni. Þegar ríkið svarar með því að gera upp þessa kröfu á grundvelli afturvirkra laga þar sem nýjar skerðingar eru lagðar til grundvallar við útreikning krafnanna þá get ég ekki skilið þetta öðruvísi en svo að ríkið sé í reynd að beita lögum afturvirkt til að lækka kröfuna sem menn fengu dæmda. Ríkið er þar með að minnka réttindi þessa fólks og taka upp eignir viðkomandi einstaklinga. Mér virðist þannig skýrt að ríkið beiti þá afturvirkum lögum til eignaupptöku því að mér sýnist þetta ekki neitt annað. Þá spyr maður auðvitað líka: Hvað segir stjórnarskráin um það? Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson svaraði því ákaflega vel í ræðu sinni í gær.

Mér skilst, herra forseti, að hér sé lögum beitt afturvirkt til að lækka þær kröfur sem Hæstiréttur hefur í reynd dæmt öryrkjum. Ég verð að segja að ég get ekki annað en mótmælt þeim aðförum. Þær eru hins vegar í stíl við allt annað sem hefur gerst í þessu máli, herra forseti. Ríkið hefur ítrekað komið fram af ótrúlega mikilli hörku gagnvart öryrkjum. Við sjáum þegar dómurinn fellur að þá rís strax ágreiningur á milli Öryrkjabandalagsins og ríkisstjórnarinnar um hvernig beri að túlka þennan dóm. Þá er skipuð nefnd, einhliða nefnd þar sem enginn úr hópi sigurvegaranna fær að vera með, þar sem aðeins fulltrúar ríkisvaldsins eru með. Formaður nefndarinnar, Jón Steinar Gunnlaugsson, hafði deginum áður lýst yfir skilningi sínum á dómi Hæstaréttar, sama skilningi og ríkisstjórnin vildi og þveröfugt við túlkun Öryrkjabandalagsins.

Herra forseti. Eitt hefur komið gott út úr þessu máli. Við höfum í þessari umræðu frétt af því hjá hæstv. ráðherrum og hv. þm. stjórnarliðsins að þeim finnist tími til þess kominn að gera átak til að bæta kjör öryrkja. Þar erum við sammála. Nú held ég, herra forseti, að það liggi beint við að við sem erum í stjórnarandstöðu bjóðum fram starfskrafta okkar, tíma og atgervi til að aðstoða stjórnarliðið við að bæta kjör öryrkja. Sá vilji hefur oft komið fram í þessari umræðu og það finnst mér ákaflega jákvætt, herra forseti. Ég tel að umræðan hafi orðið til að gerbreyta viðhorfum stjórnarliðsins til kjara öryrkja og það er ákaflega gott. Ég segi, herra forseti: Nú er komið að því að ríkisstjórnin láti verkin tala í því máli. Nú er komið að því að staðið verði við þau loforð að áður en þessi þingvetur er úti liggi fyrir lagafrv. sem uppfylli þær væntingar sem yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í þessum umræðum hafa vakið hjá öryrkjum.