Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 23:04:44 (4252)

2001-01-23 23:04:44# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[23:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að láta málfræðina liggja milli hluta en víkja að pólitíkinni. Hér talaði talsmaður Sjálfstfl. og hann segir: ,,Í stjórnmálum þarf að forgangsraða og taka á málum.`` Það hefur ríkisstjórnin vissulega gert. Hún hefur vikið til hliðar afráttarlausum dómi Hæstaréttar og hún hefur tekið þá pólitísku ákvörðun á Alþingi að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega, færa hana úr rúmum 32 þús. kr. niður í 25 þús. kr. Og hún hefur gert meira. Hún ætlar að beita fyrningarákvæðum í lögum til að hafa af öryrkjum það sem þeim ber samkvæmt úrskurði Hæstaréttar. Og nú bið ég ekki um lagalegar skýringar, herra forseti. Nú bið ég um pólitíska skýringu og útskýringu á því hvers vegna Sjálfstfl. og Framsfl. ætla að hafa þessar réttar- og kjarabætur af öryrkjum, því fólki sem er lægst launað á Íslandi.