Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 13:51:23 (4352)

2001-02-08 13:51:23# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lít svo á að lífeyrissparnaður fólks sé sparnaður, alveg eins og annar sparnaður sem fólk leggur fyrir. Þó að hann sé lögbundinn er það einfaldlega þannig að lágtekjufólk hefur yfirleitt ekki miklu meiri afgang til að leggja fyrir en bara lífeyrissparnaðinn og e.t.v. þá peninga sem því tekst að festa í fasteignum á ævinni. Uppistaðan verða svo þessar lífeyrisgreiðslur af lágum tekjum og hins vegar eignir þeirra. Þetta held ég sé hin almenna regla hjá fólki sem er með tiltölulega lágar tekjur. Það leggur ekki mikið fyrir umfram þetta enda hefur það yfirleitt ekki efni á því.

Varðandi sjúkratryggingasjóði stéttarfélaganna hafa þeir allir sérstakar úthlutunarreglur. Ég veit ekki betur en að atvinnurekendur eigi aðild að stjórnun sjúkrasjóðanna ef þeir kjósa svo. Í gegnum tíðina í starfi mínu í Farmanna- og fiskimannasambandinu í 17 ár varð ég aldrei var við að sjúkrasjóðirnir væru notaðir öðruvísi en til þeirra verkefna sem þeir voru ætlaðir til.

Ég held að greiðslurnar í sjúkrasjóði hafi eingöngu þjónað félagsmönnum í tryggingalegu tilliti, þá vegna sjúkdóma og líka þess að þeir hafi þurft að fara í sérstaka meðferð, t.d. vegna áfengis, eiturlyfja eða annars slíks.