Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 16:28:28 (4384)

2001-02-08 16:28:28# 126. lþ. 66.8 fundur 171. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (afli utan kvóta) frv., Flm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka góða og málefnalega umræðu um þetta mál sem við hér ræðum og tek undir það með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að hugsanlega þyrfti þetta að vera gert sem tímabundin tilraun, að um það sé eitthvert ákvæði í frv. þegar hv. sjútvn. er búin að fjalla um það, þ.e. að þá verði sett inn ákvæði um að gera þetta í tilraunarskyni. Ég vil undirstrika að hér er um að ræða hugmynd til lausnar á þeim vanda sem brottkastið er og velflestir eru sammála um að sé til staðar þannig að þetta er hugmynd til að leysa þann vanda. Ef menn koma með betri hugmynd í hv. sjútvn. þá er það gott. Komi menn með hugmynd um að hafa þetta sem tímabundna tilraun til þess að sjá hvernig þetta reynist þá er það líka gott. En ég tel mjög brýnt að menn komi með einhverjar breytingar þannig að komið verði í veg fyrir það brottkast sem óhjákvæmilega fylgir aflamarkskerfinu.

Varðandi það sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði um sóknarmarkskerfið og Færeyinga þá hef ég nokkrum sinnum nefnt að kostir og gallar eru við bæði kerfin. Bæði kerfin mynda kvótaverð, annars vegar magn fiskjar, hins vegar veiðitíma eða veiðigetu og það myndast auðæfi af báðum kerfum sem vandi er að dreifa. Og hvort sem menn hafa sóknardag til umráða eða tonn til að veiða, þ.e. heimild til að veiða þennan sóknardag eða þetta tonn, þá myndar það verðmæti.

Gallinn við aflamarkskerfið er einmitt brottkastið. Það er eiginlega eini umtalsverði ókosturinn ef ekki er ráðin bót á honum. Gallinn við sóknarmarkskerfið er hins vegar sá að menn huga meira að magni en gæðum þennan eina dag sem menn mega veiða. Þá reyna þeir að veiða eins mikið og þeir mögulega geta og það leiðir líka til annars ókostar sem ég mundi segja að væri mjög umtalsverður og það er hversu hættulegt það kerfi getur verið, sérstaklega á miðum sem búa við viðsjárvert veður. Menn leggja af stað og byrja á sínum sóknarmarksdegi, eru að veiða, en þá dregur ský fyrir sólu með lægð og miklum stormi en þó er haldið áfram að veiða vegna þess að menn geta ekki sleppt þessum degi.

Auðvitað má hanna kerfið þannig að menn geti veitt allt niður í mínútur í sóknarmarki sínu og komið þannig í veg fyrir að menn veiði þegar veður eru mjög válynd. Þessi kerfi hafa bæði kosti og galla.

Annar ókostur við sóknarmarkskerfið er að hætta er á að mikið umframframboð verði á fiski þegar síst skyldi, allir landi afla á sama tíma þannig að ekki verði sú sama góða dreifing og þegar menn mega ekki veiða nema ákveðið aflamark. Þeir reyna þá að koma með fisk eins verðmætan og hægt er og reyna þá helst að koma með fisk á markaðina þegar minnst framboð er hjá öðrum skipum. Þessi kerfi hafa því bæði kosti og galla. En mér finnst mjög gott að menn ræði þessa kosti og galla málefnalega þegar umræða kemur hér upp um sjávarútvegsmál.

Að öðru leyti vil ég þakka þessa umræðu. Hún var mjög góð. Ég vona að hv. sjútvn. taki þetta mál til umfjöllunar þrátt fyrir að nýverið hafi verið samþykkt lög um að taka upp kerfi eftirlitsmanna um borð í skipunum.