Fyrirvari um greiðslu lífeyrisþega

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:19:41 (4405)

2001-02-12 15:19:41# 126. lþ. 67.1 fundur 278#B Fyrirvari um greiðslu lífeyrisþega# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þann 26. janúar lýsti lögmaður Öryrkjabandalags Íslands því yfir bréflega til Tryggingastofnunar að allir þeir öryrkjar sem fengju greitt samkvæmt nýsettum lögum um tekjutryggingu almannatrygginga tækju við greiðslum sínum með þeim fyrirvara að þeir telji greiðslurnar ekki í samræmi við niðurstöðu dóms Hæstaréttar og þeir áskilji sér rétt til að krefja Tryggingastofnun um það sem á vantar. Farið var fram á að Tryggingastofnun féllist á þennan fyrirvara fyrir alla þessa öryrkja með undirskrift en greiðslur eru lagðar inn á reikninga þannig að menn kvitta ekki eða skrifa undir greiðslurnar, því var ekki hægt að setja fyrirvarann þannig.

Tryggingastofnun neitaði að fallast á að Öryrkjabandalagið væri fulltrúi þessara einstaklinga þrátt fyrir að bandalagið hefði verið fulltrúi þeirra í málarekstri sem öllum ætti að vera kunnur. Tryggingastofnun féllst ekki á að undirrita fyrirvarann og ákvað það í samráði við heilbrrn. Þar sem heilbrrn. og Tryggingastofnun hafa ekki vald til að ákveða hverjir koma fram í umboði þessara öryrkja hefur Öryrkjabandalagið ítrekað fyrirvarann og lýst hann bindandi fyrir hönd umbjóðenda sinna. Það hafa þeir gert bréflega til Tryggingastofnunar ríkisins. Því spyr ég hæstv. ráðherra og formann Framsfl. hvort ekki megi treysta því að ráðherra virði þennan sjálfsagða og eðlilega fyrirvara.