Lokun pósthúsa á landsbyggðinni

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:45:13 (4425)

2001-02-12 15:45:13# 126. lþ. 67.1 fundur 281#B lokun pósthúsa á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um að lögð hafi verið mikil vinna í að flytja störf til þessara staða í stað þeirra sem verið er að leggja af. Þarna er verið að segja upp líklega fimm til átta starfsmönnum. Ég veit hins vegar að einum eða tveimur þeirra var boðið að fara suður og vinna þar. Ekki var rætt um flutningsstyrk, ekki það ég veit, en þeim stóð til boða að flytja hingað suður.

Ég ítreka það, herra forseti, að hæstv. ráðherra getur ekki skotið sér á bak við einhverja stjórn. Þarna er verið að fylgja stefnu. Ég velti því fyrir mér að hve miklu leyti hæstv. ráðherra fylgist með þeim þjónustuúrbótum sem verið er að vinna að. Er það samkvæmt stefnu sem hæstv. ráðherra samþykkti og veit hvað felst í að sami maður afgreiðir pylsu, kjöt, bréf og bensín? Finnst hæstv. ráðherra það vera eðlileg þjónusta sem verið er að bjóða þarna upp á? Ég ítreka svo spurningu (Forseti hringir.) mína: Hefur hæstv. ráðherra samráð við byggðamálaráðherrann sem hefur þungar áhyggjur af flutningum starfa (Forseti hringir.) frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og er haft samráð við viðkomandi sveitarstjórnir um svona (Forseti hringir.) grundvallarþjónustu?