Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:16:21 (4437)

2001-02-12 16:16:21# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka undir með nokkrum hv. þm. sem hafa rætt um það hversu vel hefur gengið með yfirfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Ég var þátttakandi í þeirri umræðu sem átti sér stað þegar sú tilfærsla var ákveðin. Ég fullyrði að hvergi nokkurs staðar var til það hugmyndaflug að nokkrum dytti í hug að svo langt yrði gengið við þá tilfærslu að sveitarfélög færu út í það útboð sem er nú verið að undirbúa í Hafnarfirði. Hér er gengið algerlega á skjön við þann anda sem ríkt hefur og hér er algerlega ný útfærsla á þeirri einkavæðingu sem hefur tröllriðið öllu.

Einnig er athyglisvert að velta fyrir sér hvernig stendur á því að leitað er til heimilda í 53. gr. grunnskólalaga en ekki eftir þeirri heimild sem er að finna í 56. gr. um einkaskóla. Hver skyldi skýringin vera á því? Jú, í einkaskólum er það nákvæmlega þannig að forráðamenn ákveða það sjálfir hvort nemendur sækja skólana eða ekki. Hér er hins vegar um það að ræða að taka á hverfisskóla, setja hann niður og skylda öll börn í því hverfi að sækja skólann. Slíkt er ekki hægt í einkaskóla. Það skyldi þó ekki vera að það væri ein ástæðan fyrir því að þessi leið er farin?

Herra forseti. Það er fleira sem veldur þeirri spurningu af hverju er leitað til heimildar í 53. gr. og talað um sérsakan tilraunaskóla í þessu efni. Það vill svo til, herra forseti, að í 53. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra er heimilt að styrkja tilraunaskóla og sérstakar nýjungar eftir því sem fjárlög heimila hverju sinni.``

Herra forseti. Óhjákvæmilegt er að spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort telja megi líklegt að á næstu fjárlögum verði heimild til handa menntmrh. að styrkja svokallaðan tilraunaskóla í Hafnarfirði og þar sé komin meginskýringin á því að verið sé að leita enn einnar leiðar til þess að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins.