Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 13:46:03 (4497)

2001-02-13 13:46:03# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Auðlindanefndin svokallaða skilaði álitsgerð sinni til forsrh. í lok septembermánaðar síðasta haust. Nefndin hafði þá starfað óslitið frá því á miðju ári 1998 eða frá því að Alþingi samþykkti ályktun um kosningu hennar og hlutverk.

Samkvæmt umboði nefndarinnar, eins og það var skilgreint í ályktun Alþingis, átti starf hennar fyrst og fremst að beinast að tveimur viðfangsefnum. Í fyrsta lagi nýtingu auðlinda sem eru eða kunna að vera þjóðareign, skilgreiningu þessara auðlinda og hvernig með þær skuli farið. Í öðru lagi gjaldtöku af þessum auðlindum til að standa undir rannsóknum á þeim og stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu þeirra svo og til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.

Margt hefur verið rætt og ritað um skýrslu auðlindanefndar frá því að hún kom út. Þeir bjartsýnustu segja að hér hafi verið höggvið á þann gordíonshnút sem sjávarútvegsmálin voru að þeirra mati komin í, aðrir að hér sé kominn grunnur að byggja á en eftir sé að útfæra mikilvæga þætti. Svo heyrast líka þær raddir að ekkert hafi breyst, verið sé að blekkja þjóðina.

Auðlindanefndarskýrslan sætti í öllu falli tíðindum og þá ekki síst vegna þess að nefndarmenn náðu saman um þær tillögur sem þar eru settar fram. Þá eru nefndarmenn sammála um að aflamarkskerfið eigi áfram að vera hornsteinn íslenskrar fiskveiðistjórnar sem er sannarlega mikilvægur útgangspunktur.

Í mínum huga skiptist þessi skýrsla í þrennt. Í fyrsta lagi eru í henni vegvísar um auðlindamál íslenskrar þjóðar í heild og lagt til að í stjórnarskrá verði bætt ákvæði þannig að eignarhald á auðlindum sem ekki eru í einkaeign verði í þjóðareign. Ég tel að þessi mál eigi að skoða í heildarsamhengi og að Alþingi eigi að gera það að mestu leyti óháð því hverju fram vindur í endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða.

Annar hluti skýrslunnar og sá stærsti fjallar um gjaldtöku á sjávarútveginn vegna nýtingar hans á auðlindum sjávar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að greiða eigi fyrir afnotin en hún setur jafnframt skilyrði fyrir gjaldtökunni. Slík greiðsla stuðli að því að sátt geti tekist um stjórn fiskveiða, segir í álitinu, enda verði sú gjaldtaka ákveðin með hliðsjón af afkomuskilyrðum og uppbyggingu sjávarútvegsins og þeirri óvissu sem hann á við að búa, m.a. vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á aflabrögðum og vegna alþjóðlegrar samkeppni, þar á meðal þau skilyrði sem sjávarútvegur annarra þjóða býr við. Þetta er mikilvægt ásamt þeirri forsendu nefndarinnar að gjaldtakan verði hófleg. Tekið er fram að veita eigi núverandi handhöfum aflahlutdeilda aðlögunartíma, bæði vegna íþyngjandi breytinga og með tilvísun til áunninna atvinnuréttinda. Aðlögunartíminn fari eftir því hvaða gjaldtökuleið verði valin, áhrifum hennar á tekjuskiptingu innan greinarinnar og hve mikil gjaldtakan verður.

Gjaldtökuleiðirnar sem nefndin leggur til og gerir ekki upp á milli eru tvær, fyrningarleið eða veiðigjaldsleið. Báðar hafa þær áhrif á verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja, veðhæfni þeirra og stöðu greinarinnar í heild. Verið er að taka fjármuni út úr hagkerfi sjávarútvegsins, með öðrum orðum að minnka það.

Til að gera sér grein fyrir hvað sjávarútvegurinn gæti greitt í auðlindagjald lítur auðlindanefndin til rekstraryfirlita Þjóðhagsstofnunar fyrir 1997 og 1998 og ársreikninga fyrirtækja sem skráð eru á Verðbréfaþingi.

Í tölum Þjóðhagsstofnunar kemur fram að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 9 milljarðar 1997 og rúmir 10 milljarðar 1998 en það er tap á reglulegri starfsemi upp á 1,2 milljarða tæpa 1997 og 2 milljarða 1998.

Fyrirtækin í sjávarútvegi á Verðbréfaþingi voru með tæpan þriðjung heildartekna sjávarútvegsins 1998. Í hópnum má ætla að séu þau fyrirtæki sem mestum hagnaði skila. Gefi menn sér þó að allur sjávarútvegurinn sé að gera það jafngott og þau má ætla að heildarhagnaður sjávarútvegsins 1999 fyrir afskriftir og fjármagnsliði hafi verið 15,5 milljarðar kr. og hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir utan skatta 3 milljarðar. Þessar tölur segja mikið. Þær sýna að miðað við afkomuskilyrði núna er að mati auðlindanefndar ekki mikið svigrúm til gjaldtöku.

Fyrirtækin nú eru að gera upp árið 2000. Upplýsingar um afkomu þeirra liggja því ekki fyrir en þó má segja að afkomuviðvaranir þær sem sjávarútvegsfyrirtæki á Verðbréfaþingi hafi birt gefi vísbendingar um að afkoma ársins 2000 verði lakari en gert hefur verið ráð fyrir í áætlunum.

Auðlindanefndin tekur fram að erfitt sé að ákvarða auðlindarentuna svokölluðu og segir einnig afar erfitt að ákveða gjöld sem eigi að standa undir kostnaði ríkisins vegna sjávarútvegsins. Það fari eftir því hvað er tekið með í reikninginn og hvernig kostnaðurinn er skilgreindur. Áhrif af gjaldtökunni á verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja eru í þessari skýrslu nefnd auðsáhrif og greind þannig frá beinum áhrifum sem felast í auðlindagjaldsgreiðslum hvers tímabils. Þessi tvenns konar áhrif eru kortlögð í skýrslunni. Þar geta menn séð áhrif mismunandi hárra gjalda svart á hvítu.

Auðlindanefndarskýrslan hefur nú verið í opinberri umræðu í liðlega fjóra mánuði og m.a. hefur mikil áhersla verið lögð á það að með því að nefndarmennirnir níu styddu hana allir fælist að hér væri kominn grunnur að þjóðarsátt. Í skýrslunni kemur skýrt fram að nefndin gerir ekki upp á milli þeirra tveggja leiða sem bent er á varðandi gjaldtöku vegna nýtingar á auðlindum sjávar. Það er hluti af þeirri sátt og samstöðu um meginlínurnar í málinu að ekki skipti máli hvor leiðin verði farin.

Það olli mér talsverðum vonbrigðum á fyrstu dögum eftir skýrsluna að það virtist sem fulltrúar flokka sem áttu fulltrúa í nefndinni væru að hlaupa frá þessu markmiði en ég vona að sú hafi ekki verið raunin og vona að það sé ekki merki um að þeir sem komu að nefndarstarfinu og samherjar þeirra hér á Alþingi ætli sér eftir á að setja ný skilyrði fyrir sáttinni sem boðuð var með hinu sameiginlega áliti nefndarinnar.

Sjávarútvegurinn hefur í fyrirsjáanlegri framtíð áfram það hlutverk að afla íslensku þjóðarbúi helmings tekna af útflutningi okkar, vöru og þjónustu. Enn verður ekki séð að aðrar greinar geti tekið það hlutverk ef sjávarútvegsfyrirtækin lamast eða missa flugið. Þá þarf þjóðin í heild að taka á sig byrðar versnandi lífskjara. Til þess má ekki koma og þess vegna þarf að finna leiðir og komast að niðurstöðu í framhaldi af tillögum auðlindanefndar sem tryggja að svo verði ekki.

Þriðji hluti skýrslunnar í mínum huga er kaflinn um fiskveiðistjórnarkerfið í heild. Þar koma fram afar athyglisverðar tillögur. Nefndin mælir eindregið gegn því að framsal á kvóta verði takmarkað, enda sé flutningur á aflaheimildum til fyrirtækja sem best geta nýtt þær ein helsta leiðin til aukinnar hagkvæmni í greininni. Hvað varðar sérstakar eða breyttar skattareglur til að ríkið nái auknum hlut af ágóða af kvótaviðskiptum leggst nefndin gegn því að slíkar breytingar verði gerðar enda muni auðlindagjaldið koma í staðinn.

Þegar rætt er um dreifða eignaraðild er bent á að tækniþróun og gjörbreytt skilyrði á fjármagnsmarkaði séu meginorsakir breytinga á skipulagi sjávarútvegsfyrirtækja frekar en kvótakerfið. Þegar kvótaþakið hafi verið leitt í lög hafi það byggst á þeirri skoðun að kvótakerfið væri aðalorsök samþjöppunarinnar og henni fylgdi hætta á byggðaröskun og yfirdrottnun fárra. Bent er á að íslenskur sjávarútvegur sé í harðri samkeppni og stærstu fyrirtækin í greininni fjarri því að vera stór á alþjóðlegan mælikvarða. Þarna eru leidd rök að því að afnema kvótaþakið.

Mér þykir nefndin samkvæm sjálfri sér í þessum efnum. Þegar lagt er til að leggja aukin gjöld á greinina verður jafnframt að gera sjávarútveginum kleift að afla þeirra tekna sem þarf til að greiða gjaldið. Þarna kemur fram skilningur á því að fyrirtækin geti ekki skilað hagnaði til að greiða veiðigjald ef þau eru með aðra höndina bundna fyrir aftan bak.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson gerði að umtalsefni við upphaf umræðunnar hver hefði verið tilurð auðlindanefndarinnar og rakti það til einhverra klækja eða refskaps af hálfu stjórnarflokkanna. Hann minntist á það í framhjáhlaupi að þáv. formaður Alþb. var 1. flm. tillögunnar um auðlindanefndina. (Gripið fram í: Og er enn þá formaður ...) Þetta finnst mér vera ómaklega af stað farið af hálfu hv. þm. Sverris Hermannssonar gagnvart þáv. formanni Alþb. Þessi nefnd hefur að mínu mati skilað mjög merku starfi og um hana var tiltölulega góð samstaða hér í þingsölum þó ekki væri hún alveg 100%. En ég held hins vegar að nefndin hafi sýnt það að hún var starfi sínu vaxin með því að komast að sameiginlegri niðurstöðu sem lögð verður til grundvallar í áframhaldandi starfi.

Hv. þm. nefndi einnig í ræðu sinni að hagkvæmni og verndun fiskstofna hefði verið grunnur kvótakerfisins eða núverandi fiskveiðistjórnarkerfis og það er að sönnu rétt. En hann dró mjög í efa að vel hefði til tekist. Ég er honum ósammála í þessu. Sýnt hefur verið fram á það með mjög skýrum rökum að framleiðni greinarinnar jókst stórlega bæði í framhaldi af löggjöfinni 1983 og löggjöfinni 1990. Jafnframt tel ég að stærðir uppsjávarfiskstofna okkar og að fjögurra ára vel heppnað klak, stærstu klakárgangar þorskstofnsins, séu ekki merki um misheppnað fiskveiðistjórnarkerfi.

Að lokum, herra forseti, vitnaði hv. þm. Sverrir Hermannsson í auðlindaskýrsluna á bls. 43 þar sem rætt er um samstöðu nefndarinnar og fór ekki alveg rétt með þar sem hann sagði og vitnaði beint: ,,æskilegt að fara``, en orðrétt í skýrslunni er sagt: ,,æskilegra að fara``. Og það er munur á þeirri merkingu sem orðin standa þarna og í þeirri niðurstöðu að nefndin er samhljóða um hvaða leiðir eigi að fara og þá skipti ekki máli hvor leiðin af þeim tveimur sem nefndar hafa verið, veiðigjaldsleiðin eða fyrningarleiðin, er farin. Það ætti að nást um það jafnvíðtæk sátt.