Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 14:49:14 (4507)

2001-02-13 14:49:14# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[14:49]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur um margt verið mjög merk. Hún endurspeglar það hversu mörg og margvísleg sjónarmið og viðhorf eru uppi í umræðu um sjávarútveg. Við erum vitaskuld að tala um helstu atvinnugrein þjóðarinnar. Og það endurspeglast kannski best í því, af því að sá er hér stendur átti sæti í auðlindanefnd, að frummælandi eða upphafsmaður þessarar umræðu, hv. þm. Sverrir Hermannsson, sagði einvörðungu það sem honum hentaði í þeirri umræðu, dró út úr skýrslunni það sem honum hentaði að draga út. Og hæstv. sjútvrh. svaraði á sama hátt, tók til umræðu það sem honum hentaði með hugsanlega framtíðarmöguleika á nýtingu þessarar skýrslu í huga. Það er því ekki nema von þegar Alþingi samþykkir að skipa nefnd til þess að fara yfir þessa hluti að ekki sé sjálfgefið að menn komist að niðurstöðu sem öllum hugnist.

Mér þótti ekki síður merkilegt að hlýða á hv. talsmenn Frjálsl. fl. í þessari umræðu sem hafa verið einhvers konar einsmálsflokkur, að það þeir skuli ekki einu sinni í þessari umræðu koma fram með þau viðhorf sem þeir hafa þó sjálfir í þessum málum. Það helsta sem kom fram í málflutningi þeirra beggja hv. þingmanna var að líklega væru hugmyndir Samfylkingarinnar skástar í þessum efnum. Það er allt og sumt sem þessir hv. þingmenn höfðu til málanna að leggja.

Það hefur líka verið merkilegt að hlýða hér á hv. þingmenn Framsfl. Þeir eru á engan hátt samstiga hv. sjútvrh. þannig að mér heyrist af þessari umræðu að hún endurspegli það ágætlega að sérhver flokkur á hinu háa Alþingi er með sína stefnu í þessum málum. Og svo eru menn undrandi á því að ekki geti allir fallist á þau sjónarmið eða þau viðhorf sem nefndin setti frá sér. Kannski var líka eina samkomulagið í þessari nefnd samkomulag um að þessar auðlindir --- og við vorum náttúrlega að fjalla um miklu fleiri auðlindir en einungis sjávarútveginn --- að þessar sameiginlegu auðlindir skyldu vera í þjóðareign, að þær skyldu nýttar þannig að þær mundu aldrei lenda í höndum einhverra útvalinna eða fárra. Samkomulag var um það í nefndinni að þegar kæmi til þess að úthluta þessum auðlindum þá yrði greitt gjald fyrir það. Þetta er vitaskuld lægsti samnefnari sem má segja að hafi falist í samkomulagi nefndarinnar.

Það kemur líka fram í skýrslu auðlindanefndarinnar að ágreiningur var í nefndinni um hvor leiðin skyldi farin af þeim tveimur sem síðan voru lagðar til. Sumir voru með bókanir og aðrir ekki. En það þarf engan snilling til að sjá að áherslumunur er verulegur.

Niðurstaðan varð samt sem áður sú, þrátt fyrir að á margvísleg sjónarmið reyndi, að menn skyldu greiða gjald af nýtingu sameiginlegra auðlinda. Og það var kjarni máls í þeirri niðurstöðu sem við komumst að. Þetta verða menn að hafa í huga.

Það er líka þannig að þegar við fjöllum um helstu atvinnugrein þjóðarinnar getum við hv. þingmenn ekkert leyft okkur að haga okkur ætíð þannig í umræðunni að ekkert mark sé á okkur takandi. Við þurfum að leita leiða til þess að ná einhverri sameiginlegri niðurstöðu því að það er einu sinni þannig að þessi atvinnugrein skiptir okkur meiru enn sem komið er en nokkur önnur. Og við getum ekki leyft okkur að segja ætíð það sem við höldum að einhverjum finnist að við eigum að segja. Við þurfum einhvern veginn að leita niðurstöðu og leita að sátt. Menn eru sammála um að það þarf að stjórna þessum veiðum. Menn eru sammála um að það gengur ekki að leyfa hér frjálsar veiðar miðað við þá afkastagetu sem er í fiskiskipaflotanum. Það verður alltaf erfitt að komast að niðurstöðu. En við eigum a.m.k. að reyna að komast að niðurstöðu og ég er einn af þeim sem standa að þeirri niðurstöðu sem auðlindanefndin sendi frá sér.