Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:16:43 (4512)

2001-02-13 15:16:43# 126. lþ. 68.2 fundur 297. mál: #A lax- og silungsveiði# (gjöld og veiðitími) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Frv. er á þskj. 334 og er 297. mál þingsins.

Með frv. eru lagðar til tvenns konar breytingar. Annars vegar er verið að lagfæra annmarka í lögunum og samræma ákvæði þeirra, einkum varðandi fiskræktar- og fiskeldismál. Hins vegar er um að ræða breytingar sem gerðar eru til að ákvæðin samræmist betur lögmætisreglunni um heimildir til töku skatta og þjónustugjalda.

Herra forseti. Í fyrstu þremur greinum frv. er kveðið á um breytingar er varða málsmeðferð í fiskræktar- og fiskeldismálum. Með breytingunum er lagt til að málsmeðferðin verði einfölduð án þess þó að draga úr fagmennsku við framkvæmdina. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að veiðimálastjóri afgreiði undanþágubeiðnir til framlengingar á sjóbirtingsveiði með hliðsjón af umsögn rannsóknaraðila. Áður var gert ráð fyrir að leggja slíkar undanþágubeiðnir fyrir veiðimálanefnd. Ekki þykja tök á því þar sem nefndin hittist með nokkurra mánaða millibili og afgreiða þarf beiðnirnar með stuttum fyrirvara.

Í 2. gr. frv. er lagt til að 11. mgr. 23. gr. laganna verði felld niður en hún fjallar um heimild ráðherra til að ákveða með sérstakri reglugerð að innheimt skuli gjald af framkvæmdaraðila vegna kostnaðar embættis veiðimálastjóra af málsmeðferð 23. gr. laganna.

Í 3. gr. frv., herra forseti, er breyting til að leiðrétta ákvæði núgildandi laga. Fyrir breytingu laganna sem gerð var 1998 mælti veiðimálastjóri með staðsetningu rekstrarleyfis til fiskeldis og landbrh. gaf leyfið. Samkvæmt núgildandi lögum skal veiðimálastjóri gefa leyfið út. Auk þess sem hann mælir með staðfestingu leyfisins er lagt til að felld verði niður meðmælaskylda veiðimálastjóra við veitingu leyfisins.

Í 4. gr. frv., herra forseti, er lagt til að skilgreint verði betur hvaða gjald er átt við og hver eigi að greiða það. Eru þessar breytingar gerðar til að ákvæðin samrýmist betur lögmætisreglunni.

Í 5. gr. frv. er síðan lagt til að við 92. gr. laganna bætist ný málsgrein sem fjallar um hvenær greiða eigi gjöld í Fiskræktarsjóð og til hverra úrræða Fiskræktarsjóður geti gripið sé gjald ekki greitt.

Virðulegi forseti. Ekki verður við þessa umræðu ítarlegar farið í að skýra einstakar greinar frv. en vísað til greinargerðar og athugasemda við einstakar greinar sem er að finna í þingskjalinu.

Ég legg til að að lokinni umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.