Dýrasjúkdómar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:36:48 (4517)

2001-02-13 15:36:48# 126. lþ. 68.3 fundur 291. mál: #A dýrasjúkdómar# (sjúkdómaskrá o.fl.) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér kemur svolítið á óvart hve mjög þeir íslensku vísindamenn og embættismenn sem fjalla um þetta mál vísa til vísindalegra niðurstaðna um þetta mál. Ég hef reynt að kynna mér þetta af bestu getu og mér skilst að það sé einmitt vandamálið í þessu að það er enginn klár vísindalegur grunnur til að standa á. Þegar sagt er t.d. að óhætt sé að flytja inn vöðva þá greinir vísindamenn mjög á um hvort það sé óhætt, hvort mikill munur sé á því að flytja inn vöðva eða flytja inn hálfa og heila skrokka.

Ég verð að segja að mér finnst þurfa að nýta það tækifæri sem gefst þegar við erum að flytja svona frv. til laga um breytingu á lögum dýrasjúkdóma til að skjóta þar inn ákvæði ef það kann að vera svo að það vanti lagastoð fyrir þessu sem mér fannst vera fyrirmyndarákvæði í auglýsingunni.

Eins og hæstv. ráðherrann hefur upplýst eru lögfróðir menn að kanna þetta mál. Ég vil biðja hæstv. ráðherrann að skila því til þeirra að það séu sérstök tilmæli héðan hvort hægt sé að skjóta einhverju því ákvæði inn í þessi lög sem gefi umrædda lagastoð.