Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 16:25:00 (4528)

2001-02-13 16:25:00# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[16:25]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér sýnist að ýmsar umsóknir sem eru að koma fram muni fara í umhverfismat. Ég vil hins vegar leggja upp úr því að þetta er atvinnustarfsemi sem fer í gang. Aðalatriðið er að allt öryggi sé fullkomið og vísindalega sé staðið að málum og fylgst með. Sumir kalla það lifandi umhverfismat. Ég vil líka leggja áherslu á að ég tel að það séu ekkert margir firðir á Íslandi sem koma til greina í þessu efni, t.d. út frá þeirri verndun sem hv. þm. minntist á, hinna gjöfulu fiskveiðiáa með sín hlunnindi og þau ævintýri sem höfðar til margra í veröldinni, þannig að þá náttúru megum við ekki skemma. Út frá því sjónarmiði og veðráttu okkar eru firðirnir því mjög fáir sem koma til greina.

En það sem er mikilvægast fyrir okkur í þessu efni er að læra af reynslu stórþjóðanna sem eru nú orðnar stórveldi í fiskeldi eins og Skotland og Noregur, þær eiga sína mistakasögu. Þær bjuggu við öðruvísi tæknibúnað o.s.frv., þannig að við getum mikið lært af mistökum þeirra. Þessar þjóðir vilja miðla okkur af þekkingu sinni og eru að því. Við eigum því að geta staðið öðruvísi að þar sem við förum með þessa atvinnustarfsemi í gang og eigum þá á þessu sviði að vera fremstir þjóða með öryggi gagnvart náttúrunni.