Tjón af völdum óskilagripa

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:32:28 (4581)

2001-02-14 14:32:28# 126. lþ. 70.3 fundur 387. mál: #A tjón af völdum óskilagripa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það kann að vera erfitt að fullyrða að gripurinn sé úr sveitarfélaginu þar sem slysið verður. Það er hægt að búa sér til dæmi um að óskilagripir fari á milli sveitarfélaga. Reyndar hefur slíkt iðulega gerst.

Dómar hafa fallið á þann veg að í sveitarfélagi þar sem lausaganga er bönnuð þá sé eigandi skaðabótaskyldur. Hæstaréttardómar hafa gengið í þessa veru. Þar með er það ekki hvetjandi fyrir sveitarfélög að setja á lausagöngubann. Ég sé ekki að annar en Vegagerðin sé heppilegri til að sjá til þess að vegir séu hindranalausir, þ.e. að hætta skapist ekki á vegum.

Varðandi ábyrgð ökumannsins þá var það þannig þegar ég lærði að aka --- ég hef ekið manna, lengst hygg ég, í þessum sal, hef farið a.m.k. tvisvar til tunglsins og til baka aftur, þ.e. ég á að baki eitthvað á aðra milljón kílómetra í akstri --- þá var mér kennt að maður ætti ekki að aka hraðar en svo að maður gæti bremsað á þriðjungi þeirrar vegalengdar sem maður sæi skýrt fram undan sér.