Samningar um sölu á vöru milli ríkja

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 10:42:26 (4636)

2001-02-15 10:42:26# 126. lþ. 71.1 fundur 429. mál: #A samningar um sölu á vöru milli ríkja# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[10:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég verð að biðjast afsökunar á því að ég kom heldur seint til fundar. Ég mæli fyrir þáltill. þar sem er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samning um sölu á vörum milli ríkja sem gerður var í Vínarborg 11. apríl 1980. Sáttmálinn gildir um samninga um sölu á vörum milli aðila sem hafa starfsstöðvar í mismunandi ríkjum þegar bæði ríkin eru samningsríki eða þegar reglur alþjóðlegs einkamálaréttar leiða til þess að bæta skuli löggjöf aðildarríkisins.

Þessi sáttmáli skiptist í fjóra þætti.

Í fyrsta þætti eru ákvæði um gildissvið sáttmálans auk almennra ákvæða svo sem um túlkun.

Í öðrum þætti eru nánari ákvæði um samningsgerðina, m.a. um gerð og afturköllun tilboðs og samþykki.

Í þriðja þætti sáttmálans er að finna efnisreglur um kaup og skiptist sá þáttur í fimm undirkafla.

Í fjórða þætti eru lokaákvæði sáttmálans, þar á meðal ákvæði um gildistöku og heimild til að gera fyrirvara við hann.

Vert er að geta þess að hægt er að gera fyrirvara samkvæmt ákvæðum 94. gr. á þá leið að tvö eða fleiri aðildarríki sem hafa sömu eða svipaðar réttarreglur á því sviði sem sáttmálinn tekur til geta hvenær sem er lýst því yfir að sáttmálinn skuli ekki gilda á milli aðila sem hafa starfsstofu í þessum ríkjum. Þetta ákvæði getur haft sérstaka þýðingu fyrir Norðurlöndin vegna náins samstarfs þeirra í milli.

Á síðasta löggjafarþingi voru sett lög um lausafjárkaup, nr. 50/2000, þar sem sköpuð voru skilyrði til þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt sáttmálanum og þess vegna er þessi þáltill. flutt þar sem þau skilyrði eru nú uppfyllt og við getum staðið að honum með þeim hætti sem stofnað var til með undirritun hans.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.