Breytingar á XIII. viðauka við EES-samninginn (flutningastarfsemi)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:45:55 (4655)

2001-02-15 11:45:55# 126. lþ. 71.5 fundur 447. mál: #A breytingar á XIII. viðauka við EES-samninginn (flutningastarfsemi)# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:45]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2000, um breytingar á XIII. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1999/95/EB, um framkvæmd ákvæða um vinnutíma sjómanna á skipum sem fara um hafnir í bandalaginu.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og hún er prentuð sem fylgiskjal ásamt þeirri gerð sem hér um ræðir. Þessi ákvörðun kallar jafnframt á lagabreytingar hér á landi. Ákvörðun var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu þann 27. október sl. Ég hef áður rætt um aðdraganda þess að þessi háttur skuli hafður á og vísa til þess sem áður hefur komið fram.

Að því er varðar efnisatriði þessarar ákvörðunar nægir að vísa til grg. sem fylgir hér með og til gerðarinnar sjálfrar eins og áður hefur komið fram.

Þessi tilskipun er nokkurs konar hliðartilskipun við tilskipun ráðsins frá 1999/63/EB, um samninginn um skipulag vinnutíma á farskipum, sem gerður var af Evrópusamtökum skipaeigenda og Sambandi flutningaverkamanna, sem mælt var fyrir í sérstakri þáltill. hér á undan. Með þeirri tilskipun er hrint í framkvæmd samningi um skipulag vinnutíma á farskipum sem gerður var 30. september 1998 á milli Evrópusamtaka skipaeigenda og launafólks á þessu sviði, svo sem nánar kemur fram í grg. með þeirri tillögu. Rétt er að endurtaka það og leggja á það áherslu að þær reglur sem hér um ræðir ná ekki til fiskiskipa.

Eins og ég gat um tekur tilskipun 1999/63/EB til allra skipa sem skráð eru á ESB-svæðinu. Með tilskipun þeirri er hér um ræðir er kveðið á um að sömu reglur skuli gilda á farskipum sem taka höfn á öllu þessu svæði en eru ekki skráð í skipaskrám ríkja þess. Markmiðið með tilskipuninni er að koma á kerfi til að sannprófa og framfylgja því að skip sem fara um hafnir í aðildarríkjunum haldi ákvæði tilskipunar 1999/63/EB. Samkvæmt tilskipuninni skal efni hennar koma til framkvæmda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu eigi síðar en 30. júní 2002.

Unnið er að nauðsynlegum lagabreytingum eða undirbúningi að lagabreytingum vegna þessa í samgrn. Það er nauðsynlegt að gera breytingar á sjómannalögum, nr. 35/1985.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.