Atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 13:43:19 (4683)

2001-02-15 13:43:19# 126. lþ. 71.94 fundur 304#B atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ástandið í ýmsum byggðarlögum við sjávarsíðuna er um þessar mundir grafalvarlegt. Atvinnuleysi af stærðargráðu sem hefur nánast verið óþekkt hefur skollið yfir með skelfilegum afleiðingum. Hugsum okkur ástandið í byggðarlagi þar sem fólk hefur unnið daginn út og daginn inn af samviskusemi að fiskvinnslu en stendur síðan skyndilega frammi fyrir hræðilegri óvissu vegna lokunar fyrirtækja, gjaldþrota og atvinnubrests. Við erum ekki að tala um neinar smátölur í þessu sambandi. Yfir 90 manns urðu atvinnulausir á einni nóttu í Bolungarvík eftir gjaldþrot rækjuvinnslunnar Nasco, sem svarar til um 9% af íbúafjöldanum og er hliðstætt því að 10 þúsund manns væru án atvinnu í Reykjavík um þessar mundir.

Nú hefur atvinnulausum í Bolungarvík sem betur fer fækkað nokkuð af ýmsum ástæðum en eftir stendur þó skelfilegur vandi sem við verðum að finna lausn á til frambúðar. Við svona aðstæður eru íslensku fiskverkunarfólki bjargirnar bannaðar. Atvinnulífið er fábreytt. Það er ekki í önnur hús að venda og afl hins opinbera við atvinnuuppbyggingu hefur farið í að stuðla að nýjum atvinnumöguleikum utan landsbyggðarinnar. Það er því eðlilegt að fólki finnist að við þessar aðstæður sé verið að senda því þau skilaboð að flytja sig um set, fara suður strax.

Svona fjöldaatvinnuleysi gengur auðvitað ekki. Fiskvinnslan stendur að mörgu leyti höllum fæti, t.d. gagnvart útgerðinni sem hefur ein fiskveiðiréttinn. Krafan um allan fisk á markað er sömuleiðis stórhættuleg atvinnuöryggi fiskverkafólks um landið og þó hún kunni að þjóna stundarhagsmunum ýtrustu launakröfugerðar sjómanna er hún klárlega í blóra við atvinnuhagsmuni landverkafólks.

Meginatriðið er þó að undirstaða fiskvinnslunnar sé rétt fundin með stöðugleika í efnahagsmálum, lækkandi vöxtum, eðlilegu raungengisstigi, minnkandi þenslu á efnahagssviðinu, bættu aðgengi að hráefnisframboðinu hér á landi og áframhaldandi framförum okkar undirstöðuatvinnugreina.