Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 15:44:57 (4726)

2001-02-15 15:44:57# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., DSigf (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Drífa J. Sigfúsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að ég svari því að ég er mótfallin hvers kyns ofbeldi. Ég vil hvorki að mín börn né önnur börn stundi ofbeldi og alls ekki að þau lemji aðra eða skaði með nokkrum hætti. Mér finnst það sem hér er um að ræða, það ofbeldi sem beitt er, þau högg sem veitt eru í hnefaleikum snúast um afleiðingar sem koma fram áratugum seinna. Menn geta ekki sagt að það sem gerist í dag komi ekki fram síðar vegna þess að það eru til skýrslur sem sýna það. Ég trúi því sem Læknafélagið segir og ég vil að við tökum mark á Læknafélaginu í þessum efnum. Ég tel að íþrótt sem er til þess fallin að menn gangi í skrokk hver á öðrum, reyni að valda líkamstjóni og vanka andstæðinginn sé ekki innan þeirra marka að ég geti talið það til íþróttagreina. Slíkt athæfi er ekki innan þeirra marka sem ég tel siðferðilega rétt að standa að að samþykkja.