Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 16:04:02 (4734)

2001-02-15 16:04:02# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mjög mikið. Þó skyldi maður aldrei segja slíkt í upphafi ræðu því það hefur oft orðið til þess að ræðurnar hafa orðið mjög langar og erfiðar.

Segja má að það hafi komið mér afskaplega mikið á óvænt þegar þessi uppvakningur kom hérna inn í þingið, þessi tillaga sem við börðumst við af alefli síðasta vor og var að lokum felld í afgreiðslu í þinginu á vordögum að þá er varla þornað blekið á þeirri afgreiðslu fyrr en tillagan er komin inn á þing og það í óbreyttri mynd.

Hv. 1. flm., hv. 2. þm. Reykn., Gunnar Birgisson, hefur ýjað að því hér í dag að hann hafi nýjar upplýsingar í málinu sem geri það að verkum að nú flytji hann tillöguna þó að árið sé ekki liðið frá því að hún var felld. En ég verð að segja að hann fer nokkuð vel með þær upplýsingar. Ég hef hlustað mjög gaumgæfilega á umræðuna, hélt ég. Þó ekki á alveg allt og ég hef ekki heyrt þessar nýju upplýsingar. Mér finnst þetta vera mikil endurtekning á sömu tuggu og var endurtekin sí og æ frá sömu pólunum á liðnu vori. Þetta fer að minna mann á frægt kvæði um glímu Grettis við drauginn Glám, að þurfa stöðugt að standa hér og berjast við þennan uppvakning.

Tillagan er í sjálfu sér ákaflega einföld. Hún gerir ráð fyrir að það sé brotið á bak aftur það bann sem var sett við hnefaleikum hér á Alþingi árið 1956, m.a. fyrir forgöngu þingmanna Sjálfstfl. á þeim tíma og man ég sérstaklega eftir hv. þm. Kjartani Jóhannssyni sem beitti sér mjög í því máli. Það hafa orðið kynslóðarskipti í flokknum enda hefur hv. 1. flm. málsins minnt okkur ítrekað á að nú sé komið árið 2001 og þess vegna finnst þeim mikil þörf á að aflétta þessu gamla baráttumáli flokksins.

Ég verð að segja að það hafa komið inn í þessa umræðu, finnst mér, mjög afdráttarlaus rök fyrir því að þessi íþrótt er skaðleg. Hún er skaðleg. Gert er ráð fyrir að ólympískir hnefaleikar séu stundaðir af fólki á öllum aldri og gert er ráð fyrir keppni allt niður í átta ára barna, keppni í ólympískum hnefaleikum. Gert er ráð fyrir því að þau séu þarna inni í einhverjum hring, að vísu með hlífar á höfðinu, en séu sem sagt eftir ítrekaðar æfingar og langar, skyldi maður ætla, að reyna að koma höggi hvert á annað, helst á höfuðið og rothögg gefur stig. Eðli þessarar íþróttagreinar er þannig, þetta er árásaríþótt. Þarna er verið að ala börn og ungmenni upp í að ráðast á andstæðinginn, veita honum högg, helst sem illyrmislegust og helst á höfuðið og helst rothögg. (Gripið fram í: Kýla.) Kýla, já. Ég verð að segja að það finnst mér ekki sæmandi Alþingi að það skuli vera eytt ár eftir ár dýrmætum tíma Alþingis í að koma þessum uppvakningi í gegnum þingið og er nú mál að linni, hæstv. forseti.

Það hefur komið fram að slys yrðu í öðrum íþróttagreinum og það er alveg rétt. Það hefur komið úr óvæntri átt að hv. 1. flm. þessa máls hefur ítrekað spurt um það á hv. Alþingi hvort ekki væri ástæða komin til að banna t.d. fótbolta og svo hefur hann nefnt karate, því að þetta væru mjög hættulegar íþróttagreinar, þarna væru mikil slys. Ég undra mig á því að hv. þm. skuli ekki beita sér fyrir svona til tilbreytingar að flytja þá frv. um þessi áhugamál sín frekar en að vera ítrekað að flytja hér sama málið. Þetta er bara eins og biluð grammófónplata.

Hér hefur verið vitnað í einn sálfræðing og einn uppeldisfræðing sem komu á fund hv. menntmn. í fyrra og töldu að það gæti verið af hinu góða að ungmenni sem ættu í erfiðleikum ættu þess kost að stunda áhugamannahnefaleika. Ég verð að segja að ég tel að þeir aðilar sem komu þarna inn í nefndina og sögðu það sem var margendurtekið að væri þeirra persónulega álit, hafi ekki endurspeglað almennt álit fólks í þessum atvinnugreinum. Ég get a.m.k. borið vitni um að ég hef lengi, kannski allt of lengi, unnið við að ala upp börn. Ég var barnakennari í næstum 30 ár. Ég verð að segja að ég held að það hefði ekki heppileg áhrif á börn frá mínum sjónarhóli séð að þau væru í sérstökum æfingum, þó að þau væru þar með hanska og einhverjar grímur á höfðinu, þar sem þau væru að æfa sig að kýla hvert annað. Ég mundi segja að það hefði ekki heppileg áhrif á þetta vandamál sem maður hefur verið að glíma við á leikvöllunum í gegnum tíðina, að það er einn og einn sem er náttúrlega að berja aðra. Ég þekki þá ekki börn rétt eftir öll þau afskipti sem ég hef haft af þeim ef slíkar æfingar hefðu góð áhrif á hegðun þeirra á leikvelli.

En ég var búin að taka það fram í upphafi ræðu minnar að ég ætlaði ekki að lengja umræðuna en mér fannst nauðsynlegt að leggja orð í belg, einkum hvað það varðar að ég tel algjörlega fyrir neðan allt velsæmi að tími þingsins sé tekinn ár eftir ár í þetta mál þegar mörg brýn mál liggja fyrir.