Staða Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 15:20:09 (4754)

2001-02-19 15:20:09# 126. lþ. 72.91 fundur 306#B staða Íslands í Evrópusamstarfi# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Það er ekki nýtt að staða okkar til áhrifa sé erfiðari utan Evrópusambandsins en innan þess. En það hefur verið verkefni utanríkisþjónustunnar og okkar hér að láta EES-samninginn virka eins vel og hægt er meðan við búum við hann og meðan ekki hefur verið tekin ákvörðun um annað en að búa við hann.

Eitt af því sem þar skiptir miklu máli er að rækta tengsl við þá sem taka ákvarðanir innan Evrópusambandsins hvort sem það er á pólitískum vettvangi, vettvangi embættismanna eða atvinnulífs. Þess vegna skiptir máli að rækta vel öll þessi tengsl, byggja þau upp, endurnýja þau og viðhalda þeim. Ég nefni t.d. að þingmannasamstarf við þingmenn á Evrópuþinginu hefur gengið með ágætum og Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA hefur heimsótt þjóðþing allra þeirra landa þar sem viðkomandi ríki eru að taka við formennsku í Evrópusambandinu og þessar heimsóknir hafa skilað, að ég tel, miklum árangri.

Þegar Evrópusambandið stækkar þýðir það einfaldlega mun meiri vinnu af okkar hálfu að viðhalda tengslum og byggja þau upp. Breytingar á Evrópusambandinu kalla líka að sjálfsögðu á mikla vinnu í aðlögun að einstökum þáttum, þeim sem koma nýir inn hjá Evrópusambandinu og það kallar á enn þá meiri vinnu. En á meðan við höfum þennan samning þurfum við að einbeita okkur að því að láta hann virka eins vel og kostur er.