Staða Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 15:30:36 (4759)

2001-02-19 15:30:36# 126. lþ. 72.91 fundur 306#B staða Íslands í Evrópusamstarfi# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Rétt er að minna á í ljósi þeirra ummæla sem féllu hér síðast í pontu að samningar eins og samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði eru auðvitað tvíhliða samningar. Vilji hv. þm. Ögmundur Jónasson taka víðara sjónarhorn þá þarf væntanlega að semja við fleiri en Evrópusambandið um það víðara sjónarhorn og því fylgja bæði skyldur og réttindi. Það verður ekki bara valið af hlaðborði alþjóðasamninganna.

Herra forseti. Ójafnvægið á milli þeirra tveggja stoða sem mynda EES, þ.e. EFTA og Evrópusambandsins, er þeim sem best fylgjast með þróun ESB nokkurt áhyggjuefni og var ekki annað að heyra á hæstv. utanrrh. en hann væri nokkuð áhyggjufullur líka.

Fyrir utan gífurlegan stærðarmun þessara tveggja stoða eru þær gjörólíkar í eðli sínu. Evrópusambandið hefur breyst mikið og þróast á þeim sjö árum sem liðin eru frá því að EES-samningurinn gekk í gildi. Samstarfið nær til æ fleiri sviða, t.d. með Amsterdam-sáttmálanum, og fátt bendir til annars en að sú þróun til nánara samstarfs muni halda áfram með einum eða öðrum hætti. Því ætti þverrandi áhugi ráðamanna í Brussel á EES-samningnum að vera okkur áhyggjuefni, þeim sem láta stöðu Íslands á alþjóðavettvangi sig einhverju varða. Nýjustu tíðindin færa okkur heim sanninn um að hin svokallaða ,,bíða og sjá``-stefna íslenskra stjórnvalda dugar ekki til langframa þegar EES-samningurinn er annars vegar.

Ég leyfi mér því að spyrja, herra forseti, hvort Evrópustefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, sem fylgir hinum óformlegu leiðum, dugi í raun til langframa. Er þetta stefna sem í raun gætir hagsmuna Íslands á alþjóðlegum vettvangi? Eða á bara alltaf að hugsa sex mánuði fram í tímann, herra forseti?

Ég er þeirrar skoðunar að hún dugi ekki. Margt bendir til þess að EFTA-stoð EES-samningsins standi á brauðfótum og umræða um þau mál hér er ekki til þess gerð að kynda undir vantrú eða óvissu. Hún er einfaldlega til þess gerð að horfast í augu við staðreyndir málsins.