Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 16:31:29 (4771)

2001-02-19 16:31:29# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[16:31]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt um þessa till. til þál. um könnun á áhrifum fiskmarkaða. Ég tel að hér sé um hið ágætasta mál að ræða og kem í ræðustól til þess að lýsa yfir stuðningi við að þessar upplýsingar séu dregnar saman.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni er náttúrlega mikið af þessum upplýsingum liggjandi hér og þar í kerfinu þannig að e.t.v. þyrfti þetta ekki að taka langan tíma eða vera óyfirstíganleg vinna. Það er sem sagt erindi mitt hingað upp að lýsa yfir ánægju minni með að slík tillaga skuli lögð fram. Skýrsla sem á grunni hennar verður til hlýtur að hjálpa okkur að taka ákvarðanir um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og ná fram þeim heildaráhrifum sem við stefnum að, hvort heldur varðandi brottkast, verðmyndun á sjávarafla eða hvað sem það nú er.

Tillagan er í 15 liðum varðandi úttekt og þetta tel ég hið besta mál en vil á sama tíma vekja athygli á því að í þinginu er nýkomin fram tillaga sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ásamt fleirum leggur fram, þ.e. till. til þál. um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og vinnslu. Í sjálfu sér tengjast þessi mál heilmikið þannig að þegar málið fer til nefndar mætti eflaust finna flöt á því að tengja þessar tillögur að einhverju leyti saman.

Síðan vil ég benda á að auðvitað er þetta stórt og mikið mál, allar hreyfingar í þessu. Hér í ræðustól í dag hefur nú komið fram misskilningur varðandi eignarhald á kvótanum. Auðvitað verðum við að skoða þetta allt ofan í kjölinn og gera okkur grein fyrir því að stórir sem smáir útgerðaraðilar hafa auðvitað keypt sér kvóta og lagt fram mikla peninga eða mikla fjármuni til þess. Það eru því ekki allir á sama báti. Ég vil bara halda því til haga hér í umræðunni. Sumir hafa notað til þessa gríðarlega fjármuni sem eru með þegar gerð er upp skuldastaða útgerðarinnar svo eitthvað sé nefnt.

Virðulegi forseti. Það var aðeins þetta og ég vil lýsa ánægju minni með fram komna tillögu og vonast til þess að hún leiði til góðrar skýrslu sem verði grundvöllur áframhaldandi vinnu um farsæla ákvarðanatöku við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og framtíðarsýn varðandi vinnslu aflans.