Tónminjasafn

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 19:26:39 (4808)

2001-02-19 19:26:39# 126. lþ. 72.14 fundur 267. mál: #A tónminjasafn# þál., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[19:26]

Drífa J. Sigfúsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér til að ræða þáltill. um tónminjasafn sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson flutti. Ég held að hér sé gott mál á ferðinni eins og ég kom reyndar inn á þegar við vorum að ræða þáltill. um stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri. Ég held að mjög mikilvægt sé að við stofnum tónminjasafn og ég held að safn eins og kemur fram í þeirri tillögu sem nú er til umræðu sé mjög mikilvægt. Slíkt safn sem verður með sama hætti á sviði tónlistarinnar eins og Þjóðminjasafnið er á öðrum sviðum er mjög mikilvægt og ég held að það verði ekki stofnað án ríkisstuðnings.

Sveitarfélög og byggðir landsins geta e.t.v að miklu leyti séð kannski um sína syllu. Það getur verið tenórasafn fyrir norðan eða alls konar aðrir þættir eins og við höfum rakið hér á undan við umræðu um fyrri tillögu sem fjallar um svipað efni. En það er mjög mikilvægt að til sé á einum stað aðili sem tekur á því hvað á að geyma, hverju á að safna. Sú kynslóð sem lifir í dag er ekki kynslóð sem geymir hlutina eins og ömmur okkar og afar gerðu. Kynslóðin í dag hendir hlutunum og hún geymir ekki, hún safnar ekki ryki. Hún flytur oftar, hún hreyfir sig meira og heldur ekki utan um hlutina eins og fyrri kynslóðir gerðu. Þess vegna er mjög mikilvægt að til sé einhver einn aðili sem leitað er til, þar sem hægt er að fá upplýsingar um hvað eigi að geyma og hverju eigi að henda sem er mjög mikilvægt í öllum safnamálum.

Af því að hér hefur eitthvað verið rætt um staðsetningu, þá held ég að Stokkseyri gæti verið góður valkostur eins og kom fram áðan. Ég vil nefna eina ástæðu sem dæmi en auðvitað eiga fleiri staðir að koma til greina. Hingað til lands er sagt að komi 300 þús. ferðamenn á ári en fjölgi mikið milli ára. Talsverður hluti ferðamanna stoppar hér í örfá klukkutíma. Þeir sem þurfa að stoppa í fáeina klukkutíma vilja nota tíma sinn og það hefur gerst iðulega að til Reykjanesbæjar og til ferðamálafulltrúa hringja farþegar sem lenda í því að töf er á flugi. Eðlilega leiðist þeim að bíða og vilja hafa eitthvað fyrir stafni og þá þarf að bjóða upp á eitthvað. Einnig er mjög mikilvægt að fyrir þá farþega sem stoppa hér eina nótt í tiltölulega mikilli nálægð við utanlandsflug að til sé afþreying sem hægt er að bjóða þeim upp á vegna þess að með því móti getum við náð í talsverðar tekjur. Og mjög mikilvægt er að horfa á þá hliðina. Þó að allir sæki ekki safnið, þá yrði það talsvert stór hluti erlendra ferðamanna og því tel ég að mikilvægt sé að við staðsetjum slíkt safn á stað þar sem tiltölulega auðvelt yrði að ná til þeirra og reyta svolítið fjaðrirnar af þessum ferðamönnum, þá getum við einmitt bætt safnið í framtíðinni og ég tel að það sé afar mikilvægt.

Ég tel mikilvægt að þetta safn verði stofnað, einhvers konar höfuðsetur tónlistar og tónminja, ásamt því að stofnuð séu ýmis söfn úti á landi sem haldi hver um sig utan um sérstöðu síns svæðis og við nýtum þá öll þau tækifæri sem bjóðast með nútímatækni, eftir því sem passar fyrir hvert safn fyrir sig.